HVAÐ ER AÐ GERAST Á BAK VIÐ TJÖLDIN?
Ólíkt hafast þau að flokkssystkini þín Björn Valur og Guðfríður Lilja. Svo virðist sem Björn Valur sé að andæfa grein Guðfríðar Lilju sem vogar sér að þakka Evu Joly fyrir hennar hlut. Þar með vogar Guðfríður sér að þakka manneskju sem ekki er bara málpípa stjórnvalda heldur kona með sjálfstæðar skoðanir. Slíkt er náttúrulega ólíðandi. Björn Valur hamaðist á því í allt sumar að þetta væri frábærir samningar, góðir samningar, samningarnir sem þú varst rekinn úr ríkistjórn fyrir að mótmæla.
Ég furða mig enn á því að vinstristjórnin sem boðaði nýtt Ísland skuli standa fyrir slíkri skoðanakúgun og hafi rekið manninn úr sínum röðum sem harðast barðist gegn útrásarruglinu og þorði að andæfa bönkunum þegar það var óvinsælt. Þar gekkst þú fremstur í flokki á meðan aðrir titruðu á beinunum og vildu vera memm. Ég man þetta vel því að ég var einn af fáum sem vörðu þig og ég man stressið líka innan VG um að þú værir nú kannski að ganga of langt með að segja að það væri í lagi ef bankarnir hyrfu úr landi í stað þess að samfélaginu væri fórnað. Þetta þótti gróft og kostaði neikvæðar fyrirsagnir fjölmiðla í þó nokkurn tíma, „Ögmundur vill bankana burt!". Já, meira að segja félagar í VG vildu "vera memm" og ekki storka of mikið.
Skoðanakúgun ríkisstjórnarinnar minnir ekki á nýja Ísland heldur stjórnarhætti Davíðs Oddssonar. Ef þetta er vinstristjórn efast ég um að ég sé vinstrimaður og hef þó kosið vinstri allt mitt líf, eða hvar er vinstristefnan í reynd? Auðvaldið fær enn allt í sínar hendur, alþýða fólks borgar. Hefur kannski nær ekkert breyst? Björn Valur fer svo fram í gær og níðir skóinn af Evu Joly, manneskju sem ríkisstjórnin er án efa heldur ekkert alltof ánægð með því að hún vogar sér að segjast vera í liði með íslenskum almenningi en ekki yfirvalda. Hún er ein af þeim fáu sem fólk leyfir sér að treysta, enda var hún ekki tengd einu né neinu hér og er ekki undir hæl flokkseigendafélaga eða stjórnvalda. Hún leyfir sér að hafa sjálfstæðar skoðanir.
Eva Joly er ekki heilög frekar en nokkur annar og hið besta mál að skiptast á skoðunum við hana, en það er annað að reyna að níða skóinn af fólki, segja því „hvar það á heima" og reyna undir rós að segja því að þegja. Án efa vill ríkisstjórnin reka Evu Joly líka fyrir skoðanir sínar og fyrir að hrósa ekki Icesave sem glæsilegri niðurstöðu. Stjórnin veit hins vegar að hún hefur ekki bolmagn til að reka Evu Joly eins og hún rak þig, og situr því uppi með hana þótt ýmsum sé svo sigað út til að reyna að gera lítið úr henni. Athyglisverð fannst mér einnig fyrri færsla Björns Vals á blogginu. Þar talar hann um skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, og hampar því - til að verja Ann Sigbert í Seðlabankanum sem sagði létt verk fyrir Ísland að greiða Icesave þótt vissulega væri ýmis álitaefni.
En fyrir hvað varst þú rekinn úr ríkisstjórn Ögmundur? Hvar stóð Björn Valur þá og aðrir VG-elskendur tjáningarfrelsis? Og hvernig hefur verið reynt á allan hátt að níða skóinn af ykkur sem mótmæltuð Icesave, hvernig hefur verið reynt að grafa undan ykkur? Ég hef sjaldan séð annað eins. Pólitíkin þar hefur tekið á sig sína svívirðilegustu mynd. Mér virðist sem tjáningarfrelsinu á þeim bæ sé bara hampað þegar það er á einn veg - ríkisstjórninni í hag og flokkslínunni til ánægju.
Eitt þykir mér þó alvarlegast. Það hlýtur að liggja í augum uppi að þeir sem lögðu sig undir við fyrri Icesave-samninga, þeir sem skrifuðu upp á samningana blindandi - eins og öll ríkisstjórnin gerði nema þú og hefur ítrekað komið fram (enda varstu rekinn!) - að þeir hinir sömu aðilar eru líklega ekkert sérstaklega spenntir fyrir að í ljós komi að hægt sé að ná betri samningum. Er eðlilegt að þetta sama fólk sé enn og aftur í forsvari fyrir Icesave-viðræðum? VILL þetta fólk ná betri samningum?
Hvað er í reynd að gerast á bakvið tjöldin? Ég treysti engu og er kominn með miklu meira en nóg af því að vera sagt hvernig ég eigi að hugsa. Það hefði verið trúverðugt af ríkisstjórninni að skipa þig sem fulltrúa hennar í nýjum Icesave-viðræðum. Eitthvað segir mér illþyrmilega að ýmsir aðrir séu ekki sérlega spenntir fyrir betri niðurstöðu og séu með eitthvað allt annað plan í gangi á bakvið tjöldin. Og þá erum við í verulega slæmum málum.
Ég kýs VG ekki aftur og dæmist til að skila auðu.
Fyrrum félagi í VG.