HVAÐ ER ÁRÁS Á FULLVELDIÐ?
Sæll Ögmundur.
Hægt og rólega er það að renna upp fyrir mér hér í Kaupmannahöfn að kreppan á Íslandi er jafn alvarleg siðferðilega og hún er það fjárhagslega. Allt það sem menn hafa gert heima til að ná til erlendra fjölmiðla og í því skyni að koma málstað Íslendinga á framfæri verður skammsýni að bráð. Norskur blaðamaður sem ég þekki frá gamalli tíð hafði samband við mig um helgina og spurðist fyrir um hvort ég gæti sett hann inní hvað væri að gerast í íslensku bönkunum. Hann spurði mig einsog í framhjáhlaupi hvort rétt væri að þeir sem stjórna ættu rannsókn á hruni bankakerfisins ættu börn sem væru nátengd Kaupþingi og Glitni og hvort dómsmálaráðherra landsins ætti tengdason sem væri í innsta hring annars aðaleiganda Landsbankans. Ég vísaði þessu tafarlaust á bug sem vitleysu. Í dag hringdi ég í þennan vin minn og bað hann afsökunar. Ég hvatti hann hins vegar til að fara til Íslands og tala við viðkomandi embættismenn, elllífeyrisþegann og viðskiptaráðherra. Sjálf varð ég orðlaus og ég spurði mig: Hvernig má það vera að saksóknari og forveri hans hafa ekki siðferðisþrek til að geta metið, að þeir sjálfir geta ekki skorið úr um, hvort synir þeirra skuli sæta rannsókn eða ekki? Mér dettur ekki í hug að gruna synina um græsku, en það getur aldrei orðið feðranna að hafa skoðun á því í skjóli embættis eða valds. Það geta þeir gert prívat, en ekki öðru vísi. Ég vona að norski blaðamaðurinn vinurinn minn fái ferðaleyfi til Íslands. Það þarf fréttir í útlöndum um siðferðisþrek embættismanna og ráðherra. Vonandi er sá óþægilegi grunur sem að manni læðist, að hér gæti legið skýringin á einangrun Íslands, tilefnislaus.
Í dag gladdist ég yfir viðtali sem ég sá á mbl.is. Ég gladdist yfir því að Pétur Blöndal, alþingismaður, skyldi líkja framferði bankanna við árás á fullveldi Íslands. Eins og mál eru að þróast nú er ég sammála honum, að svo miklu leyti sem ég get fylgst með framvindunni úr fjarlægð. Í framhaldinu hljóta menn að velta fyrir sér hvað það þýðir að gera árás á fullveldi ríkisins og eins hitt, hvort lagaákvæði eru fyrir hendi sem taka á meintri árás á fullveldið. Slík ákvæði eru segir mér lögmaður að finna í lögunum númer 19 frá 1940. Ekki er ég lögfræðingur en hef bærilegan málskilning. Ég fæ ekki betur séð en að í 10. kafla laga þessara séu ákvæði, sem hugsanlega gætu náð yfir framferði einhverra bankamanna, og er ég þá að miða við að aðgerir þeirra virðast hafa sett íslenska samfélagið á hausinn, framundan gæti verið fjöldaatvinnuleysi, eignamissir fjölskyldna í stórum stíl og líklegt að margar kynslóðir Íslendinga verði hnepptar í skuldafjötra með beinum og óbeinum hætti. Með öðrum orðum, leikmanni gæti sýnst að aðgerðir stjórnenda og ábyrgðamanna bankanna leiði hugsanlega til þess að þjóðin neyðist til að afsala sér fullveldinu að hluta eða öllu leyti eða þá að innviðir samfélagsins hrynja saman. Um það fjallar tíundi kafli almennra hegningarlaga og viðurlögin eru ströng.
Ólína