Fara í efni

HVAÐ ER SATT OG HVAÐ ER LOGIÐ UM FRAMSÓKNARFLOKKINN?

Fram hefur komið í fréttum að Þjóðarhreyfingin hyggst leggja fram kæru á hendur Framsóknarflokknum í Reykjavík fyrir meint kosningasvindl. Því er haldið fram að flokkurinn hafi keypt atkvæði innflytjenda, nokkuð sem ég get staðfest að þrálátur orðrómur var um fyrir kosningarnar. Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins vísaði þessum ásökunum á bug í samtali við Ólaf Hannibalsson í Kastljósi í kvöld. Ólafur svaraði því til að best væri fyrir alla aðila að fá málið á hreint og til þess væri kæran fram komin.

Ég get tekið undir með Óskari Bergssyni að ásakanir Þjóðarhreyfingarinnar eru mjög alvarlegar. Þeim mun mikilvægara er fyrir alla aðila  - það er að segja saklausa aðila - að málið fáist rannsakað.

Þetta mál er komið í hámæli eftir að Ólafur Hannibalsson ritaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann segir m.a.: "Það vakti athygli starfsmanna sýslumannsins í Reykjavík við utankjörfundaratkvæðagreiðsluna, að þangað komu heilu rútufarmarnir af útlendingum til að kjósa undir leiðsögn manns af erlendu bergi brotnu, sem vildi fylgja þeim eins langt og lög leyfðu - og helst lengra - inn á kjörstaðinn og aðstoða þá við að setja kross á kjörseðilinn, enda margir þeirra ókunnugir okkar stafrófi. Heimildarmenn mínir fullyrða að í einhverjum tilvikum hafi þessum útlendingum verið umbunað með greiðslu frá 2000-8000 krónur á mann. Verður ekki öðru trúað en að þeir sem telja sig búa yfir vitneskju um þetta meinta misferli í kosningunum fylgi því eftir með kæru..." Sjá umfjöllun HÉR.

Auglýsti Framsókn minnst?

Eitt enn væri fróðlegt að fá rannsakað. Óskar Bergsson sagði í fyrrnefndum Kastljósþætti að fyrir kosningar hefði Framsóknarflokkurinn verið sakaður um að ætla sér að kaupa sig til sigurs í kosningunum. En hvað gerist svo? "Nú liggur fyrir að við auglýstum minnst" ! Skyldi þetta vera rétt hjá þessum talsmanni Framsóknarflokksins? Eina könnunin sem ég hef séð um auglýsingakostnað flokkanna var birt á vefritinu Múrnum. Það var í aðdraganda kosninganna og átti þá mikið vatn eftir að renna til sjávar! Þar kom fram að Framsóknarflokkurinn hefði auglýst mest allra flokka!  Sjá HÉR.
Í nýjum pistli á Múrnum er þetta áréttað. Þar segir fd:
" Þá hefur kosningabaráttan því miður enn á ný kennt okkur að sumir stjórnmálaflokkar virðast ráða yfir mun meira fjármagni en aðrir. Þrátt fyrir að vera óvinsælasti flokkurinn alla kosningabaráttuna gat Framsókn varið langmestu fé til að kynna sig og stefnumál sín. Hvaðan koma peningarnir? Eru árgjöld Framsóknarflokksins bara svona svakalega há, eða hafa stórfyrirtæki styrkt einn flokk umfram aðra? Af hverju ættu fyrirtæki, sem samkvæmt eðli sínu stefna að hámörkun tekna umfram útgjöld, að gera slíkt ef ekkert fengist í staðinn, t.d. í formi vinveittrar löggjafar? Er það virkilega tilviljun að einu flokkarnir sem hafa opnað bókhald sitt, VG og Frjálslyndir, eru þeir sem hafa varið langminnstu fjármagni í auglýsingar?"
Sjá nánar HÉR
Ég er hræddur um að Framsóknarflokkurinn þurfi að gera betur hreint fyrir sínum dyrum.