Fara í efni

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Ágæti Ögmundur. Hvað er til ráða við því sem lítur út fyrir að vera þrjóskuröskun og hugmyndafátækt á háu stigi hjá nokkrum ráðherrum Samfylkingarinnar? Þeir gefast ekki upp fyrr en þeim tekst að búa svo um hnútana að hægt sé að leigja/selja erlendum auðjöfri stóra jörð á norðausturlandi. Hvað er til ráða nú þegar smekkleysi og virðingarleysi nokkurra Íslendinga virðist ætla að verða til þess að auðjöfur þessi geti hafist handa við að grafa og steypa fyrir alls kyns mannvirkjum á einum fegursta stað á Íslandi? Hann ætlar að sögn að setja í þetta ógrynni fjár, vera að þessu í nokkur ár og nota við það mörg hundruð verkamenn! Geturðu ímyndað þér raskið sem af þessu mun hljótast? Var ekki nóg að eyðileggja Hafrahvammagljúfur, sökkva Kárahnjúkum og leggja vegi og brýr og gera stíflur tvist og bast um hálendið, breyta gruggugri jökulsá í tæra bergvatnsá, breyta litnum á Lagarfljóti, fylla Reyðarfjörð af risastórum möstrum og byggja álver? Skilur þetta fólk ekki hvað það er að gera? Er þetta réttlætanlegt til þess að kom okkur fyrr upp úr kreppunni? Að eyðileggja óspillta náttúru landsins? Af hverju í ósköpunum getur maðurinn ekki byggt sitt ferðamannaþorp annars staðar? Hvað liggur eiginlega þarna að baki? Ég kaus VG til að standa vörð um náttúruna og vinna að jöfnuði á meðal manna. Lúxushótel, golfvöllur, flugvöllur og tilheyrandi á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum fellur ekki undir stefnu VG að mér vitandi. Hvað er til ráða, Ögmundur?
Hilda B. Birgisdóttir

Það er til ráða að fólk láti frá sér heyra einsog þú gerir.
Kv.,
Ögmundur