Fara í efni

HVAÐ ERU STAKSTEINAR MORGUNBLAÐSINS AÐ SEGJA OKKUR?

"Af hverju eru ljósvakafjölmiðlarnir að leggja Framsóknarflokkinn í einelti vegna Íraksstríðsins?" Þannig spyrja Staksteinar Mogga í gær. Ekkert er við þetta að athuga nema náttúrlega að ég held að fæstir kalli þetta einelti. Í hugum okkar flestra er það fullkomlega eðlileg fréttamennska gagnvart stjórnmálaflokki, sem verður tvísaga og neitar fjölmiðlum aðgang að gögnum máls, að leita svara uns öll kurl eru komin til grafar. Það er hins vegar Morgunblaðsins að ákveða hvað því finnst vera einelti þótt ég fái ekki skilið þankagang blaðsins í þessu máli.

Þetta er þó ekki tilefni skrifa minna heldur hitt hvernig blaðið leggur pólitískt út af vandræðagangi Framsóknarflokksins. Morgunblaðið segir það ekki hafa farið framhjá flokki forsætisráðherra að Baugsmiðlarnir hafi gert sér dælt við hann að undanförnu. Flokknum hafi "líkað það vel". Nú hafi þessair fjölmiðlar hins vegar snúið við blaðinu. "Vafalaust á það eftir að hafa einhverjar afleiðingar".

Staksteinar segja að síðar eigi eftir að koma í ljós hverjar "afleiðingarnar" verði. En sagan er ekki öll þar með sögð því fleiri taka þátt í meintu einelti að mati blaðsins: "Ekki eru vonbrigði framsóknarmanna minni vegna háttsemi ríkisfjölmiðlanna".

Ríkisfjölmiðlarnir hafi sem sagt líka tekið þátt í ofsóknum á hendur vesalings Framsóknarflokknum, "þrátt fyrir að það eru framsóknarmenn, sem hafa árum saman komið í veg fyrir að sjálfstæðismennirnir hristu rækilega upp í RÚV".

Og niðurstaðan af þessu, hver skyldi hún vera? "Það er spurning, hvort framsóknarmennirnir verða jafn áhugasamir um að koma í veg fyrir umbætur hjá RÚV héðan í frá og hingað til."

Getur verið að Staksteinar séu að veita okkur innsýn í sálarlíf Morgunblaðsins, jafnvel Sjálfstæðisflokksins? Þar virðist gilda formúlan að ef þú ekki makkar rétt, þá verður þér refsað!!! Ristir virðingin fyrir fréttamennsku ekki dýpra en þetta? Eða einfaldlega fólki sem er á öndverðum meiði; er gengið út frá því að pólitískir eiginhagsmunir ráði alltaf för? Hrikalegust er sú vanvirðing sem Staksteinar sýna Framsókn. Það er gengið út frá því sem vísu að hún styðji fjölmiðla til þess eins að uppskera sjálf. Er það hugsanlega rétt? Staksteinar hafa sáð vafanum.

En áður en skilið er við þetta mál vil ég spyrja Morgunblaðið hvort blaðinu finnist engu máli skipta hvort Halldór Ásgrímsson forsætisráherra er að segja satt eða ósatt og hvort fjölmiðlar eigi að láta það ógert að grafast fyrir um sannleikann þegar staðhæfing stendur gegn staðhæfingu. Því fer fjarri að ég geti oft tekið undir með Davíð Oddssyni, utanríkisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. En hugleiðum orð hans í áramótaávarpi 2002: "Furðu margir segja hálfsatt eða ósatt og virðast ekki leiða hugann eina örskotsstund að heiðri sínum og orðstír og það sem lakara er, enginn hermir framkomuna upp á viðkomandi og ótrúlega mörgum er sama. Menn yppta öxlum og láta kyrrt liggja. Slíkt kann að standast skamma hríð en verður þjóðarböl þegar til lengdar lætur.“