HVAÐ FINNST YKKUR UM NATÓ KRAKKAR?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 06/07.07.19.
Um kalda stríðið mun framtíðin læra sem átökin á milli kapítalisma og kommúnisma á síðari hluta tuttugustu aldar. Jafnframt verður kennt að þá hefðu fyrr á öldinni verið háð tvö heit stríð á milli annarra ríkjafylkinga.
Kaldur og heitur er þarna að sjálfsögðu mælikvarðinn á mannfall, því heitara sem stríð varð, þeim mun fleiri drepnir, en hugtakið stríð vísar svo aftur til ofsans í samskiptum ríkja og ríkjafylkinga.
Svo lauk kalda stríðinu. Varsjárbandalagið liðaðist í sundur, múrar sem aðskilið höfðu austur og vestur voru felldir og viti menn, Vladimir Pútin, arftaki Lenins sem æðsti valdamaður Rússlands, gekk í bræðra- og systrafylkingu hægri manna á vettvangi Evrópustjórnmála. Já, það er rétt, Brynjar Níelsson og fulltrúi Pútins voru í sama flokkahópi hjá Evrópuráðinu. Að sjálfsögðu, enda báðir hægri menn.
Með endalokum kalda stríðsins vonuðust menn til að samskipti ríkja myndu verða skaplegri, menn gæfu stofnunum á borð við Sameinuðu þjóðirnar meira vægi, ríki sem verið hefðu auðsveipir “fylgjendur” yrðu upplitsdjarfari og sjálfstæðari í hugsun og helst yrðu vopnin endanlega kvödd.
En tvennt gleymdist. Í fyrsta lagi gleymdist að leggja NATÓ niður og fór nú í hönd áköf leit þess félagsskapar að tilgangi. Eins og gefur að skilja var það ekki leit að friði heldur ófriði því NATÓ er hernaðarbandalag og getur því aðeins lifað af í heimi þar sem blikur eru á lofti, alla vega svo lengi sem skattgreiðendum er ekki alveg sama um peninginn sinn. En hvað það varðar að viðhalda stríðsógn þá hefur NATÓ tekist prýðilega upp.
Hitt sem gleymdist er ættarfylgja stórvelda fyrr og síðar, nefnilega að kúga minni máttar ríki til að afhenda hinum máttugri auðlindir sínar og hlýða möglunarlaust.
Þau sem ekki geri það muni fá til tevatnsins. Skipt verði einfaldlega um ríkisstjórnir og hinar óþægu settar frá og þægar settar í staðinn. Þetta hefur verið gert ítrekað í seinni tíð og kallast á ensku “regime change”. Írak er dæmi um “regime change”, í Sýrlandi voru slík stjórnarskipti reynd og slík tilraun stendur yfir í Venezúela en best þótti hún heppnast í Líbíu um árið.
Þar lék NATÓ lykilhlutverk. Fyrrum valdhafi var dreginn blóðugur um götur í boði NATÓ og annað var eftir því. Óhætt er að segja að árásin á Líbíu hafi verið “heit”. Nú mun þrælasala stunduð í landinu sem aldrei fyrr en á því hafa fáir áhuga. Hlédrægir vestrænir fjölmiðlar matreiddu þetta þannig að viðkvæmt fólk hlyti ekki skaða af. Ég á þann draum að hægt verði að fá nýjar fordómalausar kynslóðir til að skoða atburðarásina þar og draga af henni lærdóma, til dæmis þann að félagsskapur við stríðsglæpamenn sé ekki sæmandi.
Samt er það hlutskipti íslenskra stjórnvalda að vera í slíku faðmlagi, og það sem verra er, virðist líka það vel. Ríkisstjórn Íslands heldur þannig áfram - móð af undirgefni - að skrifa upp á ofbeldi á heimsvísu, gekk meira að segja fram fyrir skjöldu nú alveg nýlega til að þóknast utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem vill setja nýjan forseta til valda í Venezúela, mann sem þykir hafa rétta þjónustulund til að bera. Og nú á að fara að þjarma að Íran sem illu heilli vill kjarnorkuvopn, svipuð þeim sem Bandaríkin og fleiri NATÓ ríki eiga í sínum búrum svo þúsundum skiptir!
Ekki nóg með þetta. Ríkisstjórn Íslands ætlar nú að bíta höfuðið af skömminni með því að bjóða enn opnari faðminn og heimila að nýju hernaðaruppbyggingu hér á landi í þágu ofbeldisafla heimsvaldastefnunnar.
Unga kynslóðin krefst aðgerða í umhverfismálum og það strax og undanbragðalaust.
Frábært!
En hvað skyldi hinu glaðbeitta unga baráttufólki hafa fundist um nýafstaðna heræfingu NATÓ hér á landi og um tilgangslaust loftrýmiseftirlit yfir Íslandi sem fyrst og fremst er sú leikfimisæfing hernaðarbandalags að hnykla vöðvana – um leið og það stígur mengunarsporið dýpra á einum degi en allir bændur Íslands hafa gert samanlagt í þúsund ár, en sem kunnugt er segja stjórnvöldin bændur bera meiri ábyrgð á hlýnun jarðar en aðrir menn hér á landi.
En ykkur spyr ég krakkar, hvað finnst ykkur um þjónkun Íslands við NATÓ?