Hvað með Framsóknarniðurskurðinn hjá okkur Alfreð?
Ég var að hlusta á kvöldfréttir. Alfreð Þorsteinsson á fullu að mótmæla frumvarpi Davíðs um fjölmiðla enda atvinna mörg hundruð manns í húfi. Allt satt og rétt. Hann segir Framsókn klofna í málinu. En hvers vegna hef ég aldrei heyrt í Alfreð út af niðurskurði á Landspítalanum? Það er líka vinnustaður í Reykjavík. Hefur R-listinn engar áhyggjur af öllu því fólki sem er að missa vinnuna þar út af niðurskurði ríkisstjórnarinnar. Stýrir ekki flokksbróðir Alfreðs heilbrigðisráðuneytinu? Er enginn klofningur í Framsókn út af þessu? Þarf ekki að spyrja Alfreð út í Framsóknarniðurskurðinn hjá okkur? Ég vinn á Landspítalanum og ég get sagt þér Ögmundur, að fólk er orðlaust út af þessum tvískinnungi. Sjálf er ég Vinstri græn og mjög ánægð yfir því að þið andmælið frumvarpi Davíðs. Ekki misskilja það. En í guðanna bænum ekki gleyma okkur.
Starfsmaður á Landspítala Háskólasjúkrahúsi