HVAÐ MUNAR BJARNA ÁRMANNS UM 37 KRÓNUR?
Ég mun seint gleyma því þegar Bjarni Ármannsson fyrrum forstjóri Glitnis mætti í Kastljós sjónvarpsins á dögunum. Þar játaði hann á sig allar mögulegar og ómögulegar syndir sem spyrillinn Sigmar bar upp á hann og reyndi þannig að afla sér samúðar hjá þjóðinni; þjóð sem líður nú fyrir græðgi og afglöp manna eins og Bjarna.
Það var lágt risið á snillingnum Bjarna og var sjálfsagt allt upp spunnið af almannatenglum, ekki bara svör og háttalag heldur hefur hann einnig notið ráðlegginga sérfræðinga um ásýnd alla. Bjarni var ekki með milljóna króna töffaragleraugun á nefinu, hann vildi nefnilega vera alþýðlegur og mildur, hann var þreytulegur að sjá enda sýndist mér hann sminkaður eins og lík. Þá voru jakkafötin ekki úr smiðjum dýrustu hönnuða heims, nei þau minntu á gamlan galla frá ullarverksmiðjunni Gefjun. Töluvert á sig lagt til að vekja samúð landans en almannatengla-fiffin báru engan árangur.
Rúsínan í pylsuenda almannatenglanna var svo að Bjarni greindi óvænt frá því að hann hefði endurgreitt dánarbúi Glitnis 370 milljónir króna af umdeildum starfslokasamningi sem hann hafði fengið. Þetta átti nú heldur betur að vekja upp jákvæð viðbrögð, Bjarni hafði semsagt endurgreitt 370 milljónir án þess að geta þess fyrr en nokkrum mánuðum síðar! Já, svona í framhjáhlaupi. Þetta hreyfði nú ekki meira við fólki á mínu heimili en ef rausnarskapur milljarðamæringsins hefði hljóðað upp á 37 krónur.
Munurinn á 37 krónum og 370 milljónum króna er nefnilega nánast ósýnilegur þegar hugað er að þeim stjarnfræðilegu upphæðum sem bankahrunið hefur fært - og mun færa þjóðinni í skuldum. Geir H. Haarde áætlaði upphæðina 1100 milljarða króna í lok október sl. og síðan hefur bætt verulega í. Er þá ótalinn allur sá stórkostlegi skaði sem dælt hefur verið yfir þjóðina af hinni ósnertanlegu auðstétt í formi verðbólgu, atvinnuleysis og annarra afleiðinga efnahagshrunsins.
Þjóðólfur