HVAÐ ÞARF TIL SVO ÞJÓÐIN VELJI ÍSLENSKT?
Ég las af athygli ágæta grein Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, í Fréttablaðinu síðastliðinn föstudag undir fyrirsögninni Kaupum íslenskt. Þetta er gömul hugsun sem á nýjan leik er orðin ný. Það má segja að þetta sé gömul nýhugsun.
Ég get tekið undir allt í þessari blaðagrein. Í henni er minnt á hvað bráðasamdrátturinn í eftirspurn af völdum kórónufaraldursins þýðir fyrir marga framleiðendur og veitendur vöru og þjónustu. Með því að beina viðskiptum okkar til þeirra styrkjum við stöðu þeirra eða öllu heldur drögum úr högginu.
Mér finnst ekki óeðlilegt að við horfum til nærumhverfisns að þessu leyti þótt við sama vanda sé að stríða um nánast allan heiminn.
Kaupum íslenskt hljómaði heldur betur í byrjun tíunda áratugarinns. Þá vorum við mörg sem hömruðum á þessari hvatningu og töluðum jafnframt fyrir samábyrgð í þjóðfélaginu í glímunni við atvinnuleysi.
Ekki liðu þó mörg ár þar til tíðarandinn setti algert bann við þessari herhvöt. Hún þótti meira að segja það al-hallærislegasta og forpokaðasta sem hugsast gat. Við ættum bara að kaupa það sem væri ódýrast sama hvaðan það kæmi. Nútímamanninum bæri að hugsa á markaðsvísu eða værum við kannski þjóðernisöfgamenn?
Svarið er að við viljum að hér á þessu skeri okkar leyfum við okkur að hugsa sem samfélag.
En þá vaknar ný spurning. Getur verið að í Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins og í Viðskiptaráðinu þyrftu menn að endurmeta sitt af hverju í eigin breytni og afstöðu til þess að þjóðinni finnist hún yfirleitt eiga samleið með þeim?
Icelandair var að fá stuðning úr ríkissjóði, ekki þó til að opna spilavíti eins og fyrirtækið hefur lýst áhuga á. Hvað segið þið sem hafið borgað ykkur út í arð milljónir á milljónir ofan - í sumum tilvikum milljarða á milljarða ofan – á sama tíma og þið skammtið starfsfólkinu í fyrirtækjum ykkar úr hnefa? Finnst ykkur að þið gætuð þurft að breyta einhverju hjá ykkur? Hvað finnst ykkur um meðferðina á láglaunafólki og vaxandi kjaramisrétti á Íslandi. Hafið þið haft áhyggjur af því?
Gæti verið að þau fyrirtæki sem í seinni tíð hafa ekki viljað kannast við íslenska tungu íhugi nú að stíga að nýju inn í sameiginlegt málsamfélag okkar? Hvað segið þið hjá Iceland Connect um það?
Sú hugsun að við eigum að taka sameiginlega á verður að ná alveg kringum borðið. En gerist það þá eru líka allir saman. Þá eru líka allir saman. Og auðvitað hljótum við öll að hafa áhyggjur af þeim sem nú verða tekjuausir, glata lífsviðurværi sínu, hárskerinn og hárgreiðslukonan, leigubílstjórinn, bóksalinn, veitingasalinn, leiðsögumaðurinn …
Ekki svo að skilja að við þurfum einhver viðbrögð strax. En góð væri sú tilfinning að þetta sé hugleitt. Það væri reyndar ekki verra að heyra strax á morgun talað um afkomu Flugleiða og Flugfélags Íslands; einhvern veginn væri auðveldara að finna þar samkennd en með Icelandair og Iceland Connect. Ertu ekki sammála því Guðrún Hafsteinsdóttir?