Hvað þýðir "enginn" Halldór?
Formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson opnaði sig í hádegisfréttum í dag. Það var greinilegt að hann hafði tekið ákvörðun: Stólnum allt. Látum það nú vera að Halldór langi til að setjast í stól forsætisráðherra. Það kann að vera fáfengilegt, en kannski mannlegt. Látum líka vera að stólkandídatinn endurómi orð Davíðs Oddssonar, þess manns sem nú vermir setuna. Þessu er þjóðin orðin vön og virðist samkvæmt bókinni. Látum einnig vera að formanni Framsóknar finnist ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands um að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin hafi verið röng. Það eru margir um þá skoðun. Þetta er matsatrðiði fyrir hvern og einn.
Hitt finnst mér alvarlegra, hvernig Halldór Ásgrímsson leyfir sér að tala til þjóðarinnar. Það má fyrirgefa honum mannlegan breyskleikann en ekki valdhrokann og einræðistilburðina sem komu fram í yfirlýsingum hans. Helsta viðfangsefni þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar virðist nú vera að finna leiðir til að setja lýðræðislegum vilja takmarkanir. Þeir hafna óskum stjórnarandstöðunnar um að koma þverpólitískt að þessu máli, heldur tala þeir í véfréttarstíl um undirbúning málsins á sínum vegum. Gefið er í skyn að fjölmiðlafrumvarpið verði sent þjóðinni til kynningar, - þá væntanlega einnig álit meirihluta og minnihluta þingnefnda?
Það sem ég staldraði þó helst við í yfirlýsingum formanns Framsóknarflokksins í hádegisfréttum í dag var sú staðhæfing hans að aldrei hefði nokkrum manni dottið í hug að málskotsréttinum yrði beitt. Á yfirlætisfullan hátt blés hann sig út, kvaðst hafa setið í þrjá áratugi á Alþingi, sem væntanlega átti að gefa orðum hans aukna vigt.. Síðan kom kúnstpása og að lokum klykkt út með því að enginn hafi gert ráð fyrir að synjunarvaldi forseta Íslands yrði beitt.
Í þessu sambandi vil ég minna á, að þegar EES samningurinn fór í gegnum þingið árið 1992 skrifuðu tugþúsundir Íslendinga undir áskorun um að forseti skrifaði ekki undir og málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. "Hlustum á rödd þjóðarinnar", auglýstu verkalýðssamtökin þá.
Þetta virðast ekki hafa verið Íslendingar, sem Halldór Ásgrímsson telur með því þetta fólk gerði allt ráð fyrir að synjunarvaldinu yrði beitt og var beinlínis að fara fram á að svo yrði gert.. Þær tugþúsundir sem núna undirrituðu áskorunina til forseta eru þá væntanlega ekki heldur taldir með. Þeir eru ekki til, "engir" – eða hvað?
Kannski er til of mikils mælst að menn sem vinna á eins lokaðan og einræðiskenndan hátt og formenn stjórnarflokkanna gera, hafi nokkurn skilning á lýðræði. Þessar yfirlýsingar benda til þess að svo sé ekki. Valdið spillir hefur verið sagt. Það er að sannast á þessum tveimur mönnum.