HVAR ENDAR „MANNRÉTTINDABARÁTTA" ÞÓRHALLS?
Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri Sjónvarps hjá RÚV ohf, stendur í ströngu þessa dagana. Þannig er að ritstjóri vefmiðilsins Vísis vill fá upplýsingar um launakjör dagskrárstjórans. Þessu hafa forsvarsmenn RÚV ohf neitað að verða við. En þegar svo er komið að þeir sjá sér ekki annað fært en veita upplýsingarnar bregður Þórhallur á það ráð að fá lögfræðing til að setja á þær lögbann.
Brot á mannréttindum og stjórnarskrá?
Lögfræðingurinn, Hróbjartur Jónatansson, kann til verka og bregður fyrir sig rökum af ýmsu tagi. Staðnæmist þó helst við mannréttindi. Ef upplýsingar um launakjör Þórhalls verði birtar þá yrðu þar með brotin á honum mannréttindi og stríddi það gegn stjórnarskrá lýðveldisins í ofanálag! Þetta er m.a. haft eftir lögmanni Þórhalls í Fréttablaðinu í dag : „Þetta eru persónuupplýsingar og varða ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs. Enginn á að þola að slíkar upplýsingar ferðist um þjóðfélagið án samþykkis viðkomandi. Ríkisstarfsmenn eiga ekki að njóta minni verndar en almenningur í landinu. Og sá sem krefst upplýsinganna þarf málefnalegar forsendur til þess aðrar en að svala forvitni sinni.",
Segist hafa samið við hlutafélag
Sjálfur vísar Þórhallur Gunnarsson í önnur rök. Segist ekki hafa verið að semja við Ríkisútvarpið heldur RÚV ohf. og gefur þannig til kynna að þar sem um sé að ræða hlutafélag á markaði komi engum við hvað hann fái greitt í kaup.
Lítum nánar á þetta. Lögfræðingur dagskrárstjórans segir að ríkisstarfsmenn „eiga ekki að njóta minni verndar en almenningur i landinu". Hver sem vilji lögfræðingsins er þá er það staðreynd að þeir búa við aðra upplýsingaskyldu en gerist á almennum markaði. Kveðið er á um þetta í upplýsingalögum og skýringum með þeim.
Rök gegn leynipukri
Sjálfum finnst mér að allar launaupplýsingar um alla eigi að vera opinberar. En lágmarkskrafa er að leynd hvíli ekki yfir launaupplýsingum opinberra starfsmanna, a) til að vitað sé hvernig opinberum fjármunum er ráðstafað, b) til að sporna gegn launamisrétti á vinnustað. (Þess má geta að ástæðan fyrir því að ritstjóri Vísis, Óskar Hrafn Þorvaldsson, hefur farið fram á upplýsingar um launakjör dagskrárstjórans er ekki til að „svala forvitni sinni" heldur til að ganga úr skugga um hvort launajafnrétti sé í hávegum haft innan veggja RÚV ohf. Þetta er nokkuð sem ritstjórinn gæti látið reyna á samkvæmt nýsamþykktum jafnréttislögum sem heimila Jafnréttisstofu aðgang að launagögum ef áhöld eru um að pottur sé brotinn hvað þetta varðar.)
Að tryggja réttmæta ráðstöfun lögvingaðra gjalda
Síðan eru það rök Þórhalls Gunnarssonar á þá leið að sitt hvað sé Ríkisútvarpið og RÚV ohf þegar upplýsingaskylda er annars vegar. Það er vissulega nokkuð til í þessu. Hlutafélag, jafnvel opinbert hlutafélag lýtur ekki sömu skilmálum og opinberar stofnanir almennt gera. Um opinberar stofnanir gilda margvísleg lög og reglur til að tryggja gagnsæi, jafnrétti og að farið sé að stjórnsýslulögum í hvívetna en þau voru einmitt sett í því augnamiði að tryggja réttmæta rástöfun skattfjár. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við börðumst mörg hver gegn því að Ríkisútvarpið, stofnun sem er rekin með lögþvinguðum greiðslum frá þjóðfélagsþegnunum - okkur öllum - yrði tekin út úr þessu lagaumhverfi.
Hafa stjórendur RÚV ohf hugsað málið til enda?
Spurningin sem Þórhallur vill láta reyna á er hvort ekki hafi verið gengið nægilega langt í lagabreytingunum til þess að hann sleppi fyrir horn.
Ekki veit ég hvort stjórnendur RÚV ohf hafa hugsað þessi mál alveg til enda. Þannig er hætt við að sú spurning gerist áleitin hvort greiðendur afnotagjalda séu tilbúnir að borga gjöld til stofnunar sem neitar að upplýsa hvernig fjármunum þeirra er varið.