Fara í efni

HVAR ER FRELSIÐ, HVAR SAMKEPPNIN?

Það hryggir mig að sjá hversu auðveldlega skynsamt fólk fellur fyrir málflutningi svonefndra frjálshyggjumanna. Nýlegar vangaveltur um aðkomu einkaaðila að heilbrigðiskerfinu, í formi leigu á aðstöðu í Reykjanesbæ, eru mjög gott dæmi um þessa leiðu tilhneigingu. Í greininni „Frekja frjálshyggjunnar" segirðu að passa verði „að frelsi leiði ekki til ójöfnuðar og mismununar". En bíðum við - hvar er frelsið í þessari fyrirætlun? Ég get ekki komið auga á það: Það eina sem ég sé eru fégráðugir aðilar sem hafa í huga að sækja sér skjótfenginn gróða í gegnum ríkið. Í þessu tilviki yrðu það hin Norðurlöndin sem borguðu brúsann, en eftir stendur þessi kaldi sannleikur: Þetta einkafyrirtæki leitar ekki að viðskiptum við einkaaðila, heldur vill það ná samningum við ríki um þóknun. Það er því enginn markaður um þjónustu þess, engin samkeppni eða verðsamanburður. Einungis fleyttur rjóminn ofan af fjárlögum erlendra ríkja, með því að rukka fyrir kostnað og hagnaðinn sem um er beðið. Ríkið borgar, og útgjöld til heilbrigðismála eykst. Sjáið hvað ríkið er óskilvirkt, heyrist næst. Það kostar miklu meira heldur en við myndum gera. Ríkisafskipti eru nefnilega slæm. Nema þegar ríkið er að borga mér, þá skipta þau engu máli. Hugmyndafræði frjálshyggjunnar og hjal um einkaframtak og mikilvægi þess er tóm hræsni, blaður til að slá ryki í augu fólks og beina umræðunni á rangar slóðir. Ekki spila upp í hendurnar á þeim, og gera þeim kleift að þykjast vera útverðir frelsis gegn ásókn grimmu gerræðissinnuðu kommúnistanna. Þeir hafa þegar komist upp með að gengisfella hugtakið „frelsi". Ekki leyfa þeim að útrýma því endanlega. Liberté, egalité, fraternité - toujours.
Herbert Snorrason