HVAR STENDUR RÍKISSTJÓRNIN –MEÐ FJÁRGRÓÐANUM EÐA LÝÐHEILSUNNI?
Lögbrjótar í áfengissölu færa sig sífellt upp á skaftið enda getað farið sínu fram í skjóli aðgerðalausrar lögreglu og meðvirkrar ríkisstjórnar.
Hverju læsu barni má vera ljóst að lögin eru brotin þegar einkaréttur ÁTVR á smásölu áfengis er brotinn. Lögbrjótarnir sem nú eru komnir með launaða lögmenn til að básúna ósannindin segjast sjálfir vera að fjölga útsölustöðum, það er að segja verslunum með áfengi! Á sama tíma segja þeir að lögin sé óljós hvað þetta varðar. En hvað er óljóst? Hvernig væri að fá svar því.
Óboðlegur orðhengilsháttur
Orðhengilshátturinn á sér engin takmörk, samanber eftirfarandi í frétt á vísir.is þar sem vitnað er í lögmann lögbrjótanna í kjölfar þess að lögregla vildi loka smásöluverslunum sem seldu án afláts á jólafrídegi:
“Sveinn Andri segir kjarna málsins þann að Nýja vínbúðin sé erlend netverslun, þar sem fólk geti keypt áfengi. Eins og hjá öðrum netverslunum geti fólk svo mætt á tiltekinn afhendingarstað og náð í áfengið, eins og hefðbundnari varning í póstbox.
„Ágreiningur við lögreglu snerist um það að við bentum á að þarna væri ekki verið að selja áfengi á jólafrídegi heldur væri fólk þarna að koma og sækja vöru sem það hefði keypt í erlendri netverslun, á sömu frídögum og verslanir almennt. Um þetta snerist þetta og mér sýnist lögregla hafa einhvern veginn hrökklast frá.“
Staðreyndin er sú að kaupandinn, sem sagður er panta áfengið hjá meintri erlendri netverslun, fær vöruna afhenta nær samstundis af lager sem er til staðar. Þetta er augljóslega smásöluverslun.
Í nokkurra mánaða gamalli frétt sagði mbl.is frá því að boðað væri til “stórsóknar” á þessum markaði. Hagkaup væri að fara í gang, Bónus og Krónan væru í startholunum og “frumkvöðullinn” Arnar Sigurðsson í Sante væri að stækka lager sinn í eitt þúsund fermetra: Netverslanirnar bregðast við og blása til stórsóknar
Trúrækni og löghlýðni
Lögreglan hreyfði sig aldrei þessu vant yfir hátíðarnar og spyrja menn sig hvort boðskapur jólanna kunni að skýra það. Óskandi væri að lögreglan fylgdist með lögbrotum alla daga, ekki bara á helgidögum kirkjunnar. https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/12/26/logreglan_lokadi_fyrir_afgreidslu_vins/
Fráfarandi dómsmálaráðherra viðurkenndi að þessi verslun væri ekki í samræmi við lög og kvað hún fyrir bragðið þörf á að breyta lögunum.
Þetta yrði þá gert þvert á óskir þess fólks sem best þekkir til forvarna svo og heilsuvanda af völdum áfengis: https://www.ogmundur.is/is/greinar/folkid-sem-sjalfstaedisflokkurinn-og-vidreisn-treystir-ekki
Nú er að vita hvað ný ríkisstjórn gerir:
FER HÚN AÐ VILJA VÍNSALANNA SEM ERU Í ÞANN VEGINN AÐ EYÐILEGGJA ÁTVR MEÐ ÓLÖGLEGUM AÐGERÐUM?
Eða
FER HÚN AÐ VILJA ALLRA FORVARNARSAMTAKA SVO OG SAMTAKA ALLRA HEILBRIGÐISSTÉTTA Í LANDINU SEM VILJA VIÐHALDA NÚVERANDI KERFI?
-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.