HVATNING TIL DV
Fyrir nokkrum árum var í tísku að spyrjast fyrir um það á Alþingi hve mikið starfsmenn hjá hinu opinbera fengju greitt í aksturspeninga. Vitað var að slíkar greiðslur voru stundum látnar renna til starfsmanna í stað þess að hækka við þá launin. Þetta voru þó undantekningarnar sem sönnuðu regluna. Og reglan var sú að aksturspeningar voru greiddir fyrir útlögðum kostnaði vegna aksturs í tengslum við vinnu.
Mest spilling hjá Vegagerðinni?
Það breytti ekki því að aksturspeningar voru í hugum sumra fyrirspyrjanda á þingi og í fjölmiðlum ígildi spillingar. Menn væru að fá dulbúnar tekjur í formi aksturspeninga. Hvar skyldi þá meint spilling hafa verið mest? Að sjálfsögðu hjá Vegagerðinni. Þar unnu hlutfallslega flestir starfsmenn við að aka um vegina!
Auðvitað var þessi umræða glórulaust rugl. Í stað þess að brjóta viðfangsefnið til mergjar og kanna hvar verið væri að greiða fólki aksturspeninga án útlagðs kostnaðar, með öðrum orðum, hvar verið væri að hygla fólki, þá voru allir settir undir sama hatt. Þeir sem óku um á eigin bílum, borguðu eldsneyti og allan kostnað en fengu það síðan endurgreitt, voru sagðir njóta óeðlilegra kjara.
Sama hefur löngum átt við um dagpeningagreiðslur sem einstaklingar fá greidda vegna ferðalaga.
RÚV reið á vaðið
Nýlega vildi fréttastofa RÚV fá upplýsingar um ferðakostnað minn vegna tiltekinnar ráðstefnu sem ég sótti erlendis og þá einnig hvaða upplýsingar mætti ætla að viðkomandi ferð kæmi til með að skilja eftir í Innanríkisráðuneytinu eftir að ég léti af störfum þar sem ráðherra. Þessu svaraði ráðuneytið skilmerkilega og vísaði að auki í fréttaflutning af ráðstefnunni og framlagi mínu þar, en ég hef kappkostað að upplýsa vel um þá fundi sem ég sæki á vegum Stjórnarráðsins.
Við þetta kviknaði áhugi DV og var óskað eftir upplýsingum um alla dagpeninga sem ég hefði fengið frá því ég tók við embætti í september á síðasta ári. Í ljós kom að upphæðin nam rúmri milljón. Þá var deilt í þá upphæð mánaðafjöldanum sem liðinn var - að vísu vitlaust reiknað - og fengið út hve mikið ég hefði fengið að meðaltali á mánuði. Undir lok samantektar blaðsins er að sönnu hafður fyrirvari á: „Það er þó ekki hægt að segja að hann hafi stungið greiðslunum beint í vasann en hann hefur þurft að standa straum af hótel- , matar- og ferðakostnaði, að flugferðum undanskildum, með dagpeningagreiðslum í flestum ferðunum."
Spyrjum um tvennt
Ef þetta er nú svo - sem er raunin - þarf þá ekki að spyrja um tvennt? Í fyrsta lagi, eru dagpeningarnir það rúmt reiknaðir að menn séu yfirleitt að stinga einhverju „beint í vasann." Og ef svo er, þyrfti þá ekki að lækka dagpeningagreiðslur hjá starfsfólki í erindrekstri fyrir stjórnsýsluna, stofnanir og fyrirtæki? Ég tel reyndar að tilkostnaður sé yfirleitt í samræmi við greiðslurnar, með öðrum orðum, að engu sé stungið í vasann og að fréttaflutningur DV sé því hreint rugl.
Í öðru lagi mættu fjölmiðlar sem vilja veita aðhald spyrja um notagildi ferða, eiga þær rétt á sér eða ekki. Þá umræðu vil ég gjarnan taka um hverja einustu ferð sem ég hef farið í, en þeim hef ég, sem ráðherra margra málaflokka, stillt mjög í hóf.
Þörf á vönduðum fjölmiðlum
Fréttaumfjöllun DV átti sennilega að sýna með fyrirsögn og framsetningu að af ferðum mínum væri spillingarfnykur og að ég hagnaðist á þeim persónulega. Kannski langar suma fjölmiðla ekki til að láta taka sig alvarlega. Bara vera hressilegir í fyrirsögnum og selja vel. Koma síðan með smáleiðréttingu undir blálokin þegar margir gætu verið hættir að lesa. Þrátt fyrir marga ágæta og mikilvæga spretti, á DV það til að falla í þennan pytt, líkt og á við um þennan fréttaflutning. Sjálfur vil ég að fjölmiðlar séu aðgangsharðir en jafnframt að fréttaflutningur þeirra sé vandaður, sanngjarn og upplýstur.
Það er þörf á trúverðugum stjórnmálmönnum á Íslandi. Það er líka þörf á trúverðugum fjölmiðlum. Hver passi upp á sitt.