Hvenær skyldi Kalda stríðinu ljúka á Íslandi?
Utanaríkisráðherra Íslands, Halldór Ásgrímsson segir blikur á lofti í varnarmálum Íslands. Ekki var annað að heyra á utanríkisráðherra í fréttatímum í kvöld en hann væri kominn á fremsta hlunn með að segja upp "varnarsamningnum" við Bandaíkjamenn. Svo var að skilja að Bandaræikjamenn skyldu hafa verra af (eða þannig) ef þeir stæðu ekki við skuldbindingar sínar. Ástæðan er sú, að Bandaríkjamenn hafa verið að flytja eitthvað af hertólum sínum frá Íslandi og þá á þær slóðir í heiminum þar sem stríð eru háð nú á tímum. Það er að sjálfsögðu skiljanlegt að bandaríska herveldið vilji hafa vígtólin þar sem það herjar á hverjum tíma. Í fréttum í kvöld var einnig rætt við Leo Michel, sérfræðing í varnarmálum hjá Institute of National Strategic Studies í Washington D.C. Hann flutti okkur þær fréttir að Kalda stríðinu væri lokið og var á honum að skilja að loftárásir á Ísland væru ekki yfrirvofandi. Því miður hafði ekki verið gengið eftir því við Halldór Ásgrímsson að útskýra hverja hann teldi vera helstu ógnvalda Íslendinga og þá hvort það væru okkar grannríkin, Bretland eða Norðurlönd eða þá fjarlægari lönd, sunnar og austar í Evrópu eða fjarlægari ríki, Japan eða Kína. Áhorfendur og tilhlýðendur voru því nánast skildir eftir ílausu lofti. Ég legg til að Halldór verði fenginn í Kastljós eða Ísland í bítið til að útskýra þetta. Mér fyndist sanngjarnt að hann fengi að vera einn. Ég hugsa að hann þurfi góðan tíma.