HVER Á AÐ EIGA BANKANA?
Sæll Ögmundur ég var með hugleiðingar um jöfnuð, það sem svo oft er rætt um en að því er virðist lítið áunnist í. Ég tel að með ríkiseign á bönkunum öllum hefði mátt binda niður launabrjálæðið í bankageiranum, sem er augljóslega á skjön við allt annað í samfélaginu. Er það ekki sjálftaka og lýtur allt öðrum lögmálum heldur en þau örfáu prósent sem verkamenn þurfa að sætta sig við? Í einkaeigu halda mönnum engin bönd, og sjálftakan varð svo mikil að reksturinn sjálfur beið skaða. Mér finnst þessi umræða ekki hafa náð neinu flugi, og mér finnst að menn geri ekki nægilega miklar kröfur til jafnaðar í samfélaginu, menn yppta öxlum þegar bónusar og kaupaukar fara aftur í gang. Hver er þín skoðun, eiga bankarnir ekki að vera í ríkiseigu til að binda niður yfirstéttina í sjálftöku sinni?
kveðja,
Gunnar
Landsbankinn á tvímælalaust að vera í ríkiseign. Ég gæti best trúað því að uppreisn gegn bankakerfinu eigi eftir að birtast í stofnun nýrra banka sem starfa á þeim grunni að þeir skapi eigendum ekki arð - séu það sem kallað er "non-profit". Umræða á þessum nótum er á fullri ferð víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum. Dögun, með Þorleif Gunnlaugsson í broddi fylkingar í Reykjavík, talaði fyrir stofnun borgarbanka en sú umræða er af sama meiði og ég er að visa til.
Um aðra þætti hugleiðinga þinna er ég sammála.
Kv.,
Ögmundur