Hver bauð þessum mönnum?
Hver í ósköpunum hefur óskað eftir því að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kæmu hingað til lands til að gefa okkur einkunn í stjórn efnahagsmála? Hver þekkir ekki einkunnagjöf Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Sennilega hefur ekkert ríki farið eins rækilega að vilja þessara stofnana og Argentína, þar var allt einkavætt sem hægt var að einkavæða og ráðleggingum "sérfræðinganna" frá stofnunum tveimur fylgt í þaula. Ekkert land hefur farið eins illilega á hausinn og einmitt þessi fyrirmyndarnemandi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Og nú eru þeir komnir hingað. Toppmenn Davíð og Halldór, segja þeir. Þyrftu að vísu að einkavæða heldur meira í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, já og raforkugeiranum, þá verður allt í himnalagi. Bara að passa að lána ekki of mikið á hóflegum ríkisvöxtum til húsnæðismála. Þau mál eiga heima á markaði, segja þeir.
Hver getur tekið þessa menn alvarlega, nema náttúrlega sem talsmenn alþjóðafjármagnsins?
Og ég spyr að nýju, hver bauð slíkum mönnum upp á dekk til að veita okkur leiðsögn? Fjármálaráðuneytið eða Seðlabankinn? Okkur er sagt að þeir hafi rætt við fjölda aðila. Eftir því sem ég kemst næst voru allir sniðgengnir sem eitthvað höfðu upp á þá að klaga. Ekki ber þetta vott um trú á málstað Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Stundum hefur verið talað um aumingjagæsku. Sannast sagna hef ég trú á því að þeir sem skipulögðu komu fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins séu fyrst og fremst góðir menn. Þeir hafi viljað gera komu gesta sinna huggulega og notalega – trouble-free. En fyrir íslenska þjóð er þetta náttúrlega annað og meira en saklaus gestakoma. Þegar allt kemur til alls eru þetta engir vesalingar. Þetta eru fulltrúar alþjóðafjármagnsins og það sem óhuggulegast er: Þetta eru aufúsugestir ríkisstjórnar Íslands.