HVER BER ÁBYRGÐ Á LAUNAMISRÉTTINU?
Mikil og réttlát reiði er nú í þjóðfélaginu út af ákvörðunum Kjaradóms um hækkun launa forseta, alþingismanna, ráðherra, dómara, biskups og fleiri, talsvert umfram þær hækkanir sem samið hefur verið um í kjarasamningum almennt.
Hið alvarlega í þessu er tvennt.
Í fyrsta lagi eru vinnubrögðin forkastanleg. Eina ferðina enn er okkur greint frá þessum ákvörðunum eftir að öðrum kjarasamningum hefur verið lokað og það sem meira er, þetta er gert á þeim tíma þegar erfitt er að bregðast við. Þannig er þjóðin í þann veginn að hverfa inn í jólin þegar Kjaradómur nú kynnir ákvörðun sína.
Hitt er svo enn alvarlegra að við erum að verða vitni að enn einu skrefinu sem stigið er í átt að auknu launabili í þjóðfélaginu. Kjaradómur segist taka mið af Kjaranefnd sem aftur segist, lögum samkvæmt, vera að horfa til umsaminna launa forstöðumanna og annarra sem efstir eru í hinu samningsbundna launaumhverfi. Þetta kann allt að vera hárrétt og í rauninni í samræmi við það sem vísbendingar hafa verið um. Þar erum við líka komin að hinni pólitísku ábyrgð. Hún er atvinnurekendanna, sem hækka stjórnendur og hálaunafólk í kjörum bæði í samningum og utan samninga, langt umfram láglauna- og millitekjufólkið. Með undanteknungum hefur þetta verið reyndin undanfarin ár.Þarna liggur ábyrgð atvinnurekenda hvort sem þeir eru einkareknir eða ríkisreknir.
Hvert leiðir þetta? Gagnrýnin á ákvörðun Kjaradóms er af tvennum toga.
Annars vegar hafa ýmsir áhyggjur af því að þetta blási lífi í kjarabaráttu launafólks, kveiki í fólki. Ekki hef ég sér
Í öðru lagi gagnrýna menn vaxandi kjaramisrétti. Undir þá gagnrýni tek ég heilshugar. Þetta finnst mér vera mergurinn málsins.
Það sem ég óttast að muni gerast í kjölfarið er, að reynt verði að setja forstjóralaunin undir huliðshjúp. Með öðrum orðum, til þess að himinhá laun raski ekki ró, eða öllu heldur dragi ekki úr andvaraleysi lágtekju- og meðaltekjufólks, verði kjör hátekjufólksins gerð leynileg. Hvers vegna var til dæmis kveðið sérstaklega á um það í nýgerðum lögum um Fjármálaeftirlitið að laun forstjórans skyldu tekin út úr bæði almennu samningsumhverfi og undan Kjaranefnd og Kjaradómi? Þau eru á þeim bænum samningsatriði stjórnar og forstjóra. Hið sama gildir um fleiri stofnanir. Ég gagnrýndi þetta á þingi á sínum tíma við engar undirtektir stjórnarmeirihlutans. Það væri verðugt verkefni fjölmðila að fara í saumana á þessu.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýnt hafa ákvörðun Kjaradóms nú, hafa látið að því liggja að kjör þingmanna séu of lág. Pétur H. Blöndal kvaðst t.d. hafa hitt konu sem hann hefði viljað fá í framboð fyrir sinn flokk en hún ekki treyst sér því þá hefði hún lækkað í launum. Nú er ég þeirrar skoðunar að þingmenn eigi að hafa ágæt laun. En það á líka, og ekkert síður, við um sjúkraliða, strætóstjóra, tollverði og fiskvinnslufólk. Ég er sannfærður um að ofurlaun hjá þingmönnum myndu ekki tryggja okkur betra fólk á þing nema síður væri. Hugsjónasnauðir gróðapungar myndu þá í auknum mæli sækjast eftir þingsetu. Væri það til bóta? Ekki held ég það.
Getur verið að sumir gagnrýnenda Kjaradóms séu á þeirri skoðun að laun þeirra stétta sem liggja í bómull Kjaradóms, og hafa nú fengið launahækkun, eigi í reynd að vera hærri en þau eru? Það eina sem hafi farið úrskeiðis sé að launahækkunin hafi ekki farið nægilega hljótt og því valdið usla. Þeir sem eru á þessari skoðun eru komnir út á brautir sem ég er algjörlega andvígur. Ef menn vilja hins vegar skera upp herör gegn kjaramisrétti og mynda viðtæka sátt um að draga úr launamismun, þá er augljóst að við erum samherjar.