Hver er afstaða dómsmálaráðherra til spilavíta?
Birtist í Mbl
Fyrir Alþingi liggja nú tvö frumvörp og ein þingsályktunartillaga sem snerta spilakassa eða spilavítisvélar sem svo hafa verið nefndar. Ástæðan fyrir þessari nafngift er sú að spilakassar af því tagi sem Háskóli Íslands og Íslenskir söfnunarkassar sem Rauði kross Íslands, Slysavarnafélagið, Landsbjörg og SÁÁ standa að eru af sama toga og spilavíti á stöðum á borð við Las Vegas byggja afkomu sína á. Afleiðingarnar eru einnig áþekkar, harmleikur fjölskyldna þar sem einstaklingar hafa ánetjast spilafíkninni.
Þekktur bandarískur geðlæknir Sheila B. Blum sem sinnir spilafíklum í New York komst svo að orði í sjónvarpsviðtali hér á landi: „Áfengissýki eyðileggur fjölskyldu, konu, mann og börn en spilafíkn eyðileggur fyrir mörgum kynslóðum. Ekki er einungis eignum nærfjölskyldunnar sóað heldur foreldra, afa og ömmu, barna og barnabarna. Svo spilafíkn fer verr með fjölskyldur en áfengissýki.“
Vitnisburður lækna
Vitnisburður lækna er mjög á eina lund. Undirritaður hefur átt mjög fróðleg og upplýsandi samtöl við lækna SÁÁ á Vogi til að fræðast um spilafíknina. Guðbjörn Björnsson læknir upplýsti undirritaðan meðal annars um að sú könnun sem gerð var árið 1998 um spilafíkn á meðal sjúklinga SÁÁ á Vogi benti til þess að útbreiðsla þessarar fíknar væri hlutfallslega orðin svipuð og gerist með öðrum þjóðum þar sem gott aðgengi væri að spilavítum. Læknir SÁÁ upplýsti jafnframt að það væri sláandi hve margir þeirra sem ánetjuðust þessari fíkn væru greindir og vel gerðir einstaklingar, sómakærir á alla lund. Við spilafíknina fengju þeir hins vegar ekki ráðið án aðstoðar. Í upplýsingum sem SÁÁ hefur sent frá sér er spilafíknin skilgreind sem „…sjúkleg viðvarandi og síaukin löngun til að spila eða leggja undir og fjárhættuspil eða spilahegðunin setji í hættu eða eyðileggi stöðu einstaklingsins, félagslega og fjárhagslega hvort sem er á heimili eða á vinnustað.“
Finnum nýja tekjustofna
Frumvörpin sem liggja fyrir Alþingi ganga út á það að banna spilavíti hér á landi. Í greinargerð með frumvörpunum segir jafnframt að mikilvægt sé að finna aðra tekjustofna „…til að fjármagna samfélagsþjónustu og forvarnar- og meðferðarstarf sem rekið hefur verið fyrir ágóða af þessari hættulegu starfsemi.“
Í þingsályktunartillögu sem nú hefur verið lögð fram er þetta sjónarmið áréttað og lagt til að skipuð verði „…nefnd sem geri tillögur um leiðir til fjáröflunar fyrir Háskóla Íslands, Rauða krossinn, SÁÁ og Slysavarnafélagið Landsbjörg sem komið geti í stað tekna af rekstri söfnunarkassa.“
Eins og fram hefur komið í fréttum og blaðaskrifum er þetta ekki í fyrsta skipti sem frumvarp af þessu tagi er lagt fram á Alþingi. Það hefur verið gert áður en hlutskiptið hefur orðið það sem iðulega hendir óþægileg mál. Það hefur einfaldlega verið látið sofna svefninum langa. Á þessu eru þó til ýmis tilbrigði. Þannig var frumvörpunum síðast þegar þau komu fram vísað til ríkisstjórnar í trausti þess að eitthvað yrði aðhafst. Flutningsmenn létu tilleiðast að fallast á þessa málsmeðferð þar sem starfandi var þá nefnd sem hafði happdrættismál þjóðarinnar til gagngerar endurskoðunar. Þegar síðan var gengið eftir því við fyrirrennara núverandi dómsmálaráðherra að málinu yrði fylgt eftir kannaðist hann ekki við að neitt annað hefði vakað fyrir Alþingi en skjóta þessum málum inn í allsherjarendurskoðun. Þessu hefðu ekki fylgt neinar skuldbindingar. Það kann reyndar rétt að vera en hitt er þó jafnvíst að við sem stóðum að frumvörpunum höfðum staðið í þeirri trú að meiri alvara væri að baki.
Við bíðum svars ráðherra
Nú liggur fyrir skýrsla umræddrar endurskoðunarnefndar. Þar kemur ekkert fram sem bendir til þess að vilji sé til þess að taka á málinu og losa okkur við þessar vélar fyrir fullt og allt. Einu gagnrýnisnóturnar hvað kassana snertir eru á þá lund að ráðuneytið hafi ekki sett reglugerð um þessar vélar eins og þó er lögboðið. Þetta er vissulega ámælisvert og sýnir alvöruleysið í þessum málum. Hitt er svo mikilvægt að menn geri sér grein fyrir að krafa okkar lýtur ekki að reglugerðum og eftirliti heldur hinu að dómsmálaráðherra gangi fram fyrir skjöldu og lýsi því yfir að vilji sé til þess að Ísland verði án spilavíta.
Nú er þess beðið að dómsmálaráðherra segi sinn hug í þessu efni. Ef afstaða Sólveigar Pétursdóttur, dómsmálaráðherra er jákvæð þá er ég sannfærður um að fyrir því sé þverpólitískur vilji að finna þeim stofnunum og þeirri mikilvægu starfsemi sem hagnast á spilavítum aðra og betri tekjustofna.