HVER ER BESTUR? – UM GOTT AUÐVALD OG VONT AUÐVALD
Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, skrifar kraftmikla grein – eins konar eldmessu - í Lesbók Mbl. um síðustu helgi. Matthías fer mikinn og kemur víða við. Undir margt get ég tekið í þessari messu Matthíasar, annað ekki. Honum þykja peningarnir ráða of miklu í samfélagi samtímans, auðmenn kaupi sér völd. Mikið rétt, en er það eitthvað nýtt? Matthías vissi greinilega að þessi spurning myndi vakna og verður fyrri til að spyrja og svara: "Nú segir áreiðanlega einhver", skrifar hann, "varst þú ekki ritstjóri auðmanna á fimmta áratug? Jú, að vísu, en það var gott auðvald. Skipti sér aldrei af ritstjórn Morgunblaðsins og treysti þeim sem það fól starfið..."
Ekki efast ég um að ritstjórar Morgunblaðsins hafi verið sáttir við auðmennina, eigendur blaðsins, sem treystu þeim til að halda uppi merki kapítalismans, NATÓ og alls þess sem blaðið barðist fyrir á síðari hluta 20. aldarinnar. En þetta var semsé, að mati Matthíasar Johannessen, "gott auðvald". Margir kölluðu þetta "góða auðvald" Matthíasar Kolkrabba, en um áratugskeið hafði hann undirtökin í íslensku þjóðlífi, og ekki alltaf til góðs – fjarri því.
Gott auðvald er gott við ritstjóra Morgunblaðsins
Ég held að óhætt sé að fullyrða að "góða auðvaldið" hafi tekið til sín eins mikið af íslenskum þjóðarauð og það komst yfir á hverjum tíma. Það er hins vegar hárrétt að misskiptingin hefur farið hraðvaxandi í íslensku þjóðfélagi á síðustu 15 árum eða þar um bil og er nú margfalt meiri og sýnilegri en hún lengstum var á síðari hluta 20.aldarinnar. Eignir þjóðarinnar hafa verið seldar og gefnar, en helstu gerendur í þeirri þróun hafa verið menn sem mér er ekki grunlaust um að Matthías og Mogginn telji til "góða auðvaldsins". Eða hvað sagði Morgunblaðið í leiðara þegar Davíð Oddsson lét af störfum, maðurinn sem verkstýrði því að losa um þær hömlur sem þó höfðu verið á auðvaldinu, maðurinn sem kvað það vera hlutverk stjórnmálamanna að "virkja eignagleðina"?
Davíð í liði með "góða auðvaldinu"
Í leiðara Morgunblaðsins 8. september var lokið nánast trúarlegu lofsorði á Davíð: "Pólitík og persóna Davíðs Oddssonar hafa undanfarinn tæpan aldarfjórðung sett svo sterkt mark á íslenzk stjórnmál að erfitt er að finna samjöfnuð." Skrif Morgunblaðsins þessa daga voru uppnumin og var hástöfum tekið undir þá einkunn sem Davíð gaf sjálfum sér á fundi með fréttamönnum. Af hógværð sinni hafði hann þetta að segja um það sem Morgunblaðið kallar "Davíðstímabilið", ár einkavæðingar, markaðshyggju og misskiptingar: "Niðurstaðan er örugglega sú að Ísland er miklu fjölbreyttara, öflugra, skemmtilegra og betra samfélag nú en það var fyrir tíu-tuttugu árum." Í umræddum leiðara Morgunblaðsins var staðhæft fyrir hönd þjóðarinnar að þetta væri hverju orði sannara hjá Davíð Oddssyni: "Undir það geta flestir Íslendingar tekið - og þakkað Davíð Oddssyni fyrir hans hlut í því." Mikið hefði verið gaman ef Matthías hefði skýrt fyrir lesendum Morgunblaðsins hver það er nákvæmlega sem er góður og hver slæmur í heimi hins kaldhamraða kapítalisma – og þá einnig hverjum beri að þakka og þá fyrir hvað?
Þjóðfélag peningafólks
Mjög sterk birtingarmynd auðvaldsþjóðfélagsins var dregin upp í frétt á vísir.is sl. föstudag: "Hátt í hundrað milljóna króna framlag safnaðist í uppboði undir hátíðarkvöldverði Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Listasafni Reykjavíkur í gærkvöldi þar sem sir Roger Moore var ræðumaður. Nokkur hundruð manns voru þar saman komin í boði Baugs, FL Group og Fons, sem fyrr um daginn höfðu gefið samtals 135 milljónir til mannúðarstarfa í Gíneu-Bissá í Afríku. Hæsta tilboð sem barst í hlut á uppboðinu var 21 milljón króna í málverk eftir Hallgrím Helgason rithöfund, sem hann á eftir að mála, og einn gestanna greiddi tvær og hálfa milljón fyrir að fá að vera veðurfréttamaður á NFS í einn dag, svo eitthvað sé nefnt. 80 milljónir söfnuðust á uppboðinu og síðan skráðu gestir sig fyrir framlögum upp á hátt í 20 milljónir króna."
Einhver myndi segja að þetta hlyti að teljast "gott auðvald", sem lætur fé af hendi rakna til bágstaddra barna í Afríku. Auðvitað ber alltaf að þakka fyrir það sem gert er af góðum hug, sem ég gef mér að þarna hafi búið að baki. Ég neita því hins vegar ekki að mér fannst þessi frétt um stórgjafirnar til Gíneu-Bissá gefa innsýn í óhugnanlega þróun í okkar samfélagi. Það er alveg augljóst að hér á landi er orðinn til allstór hópur fólks sem veit ekki aura sinna tal. Við þetta vakna ýmsar pólitískar og siðferðilega spurningar, sem snúa að okkur inn á við.
Bogesen og Salka Valka endurvakin
Við þurfum að spyrja hvort við séum tilbúin að skipuleggja efnahagskerfið og þjóðlífið allt þannig að hér verði til hópur sem bókstaflega veður í peningum á meðan aðrir eiga ekki fyrir nauðþurftum, hópur sem læknar og líknar og öðlast völd og áhrif í samræmi við það. Viljum við halda aftur inn í þjóðfélag þeirra Bogesens og Sölku Völku? Við erum nefnilega á leiðinni þangað. Á fundi sem ég sat nýlega í stjórn PSI, Samtaka launafólks í almannaþjónustu, kom mál af þessu tagi til umræðu. Þar var heimurinn allur undir en ekki Ísland eitt. Spurt var: Er í lagi að þiggja stuðning frá auðkýfingnum Bill Gates og öðrum ámóta í þau verkefni sem við erum að sinna, sem er baráttan við heimsauðvaldið og þar með þennan sama Bill Gates. Ef hann er velmeinandi "gott auðvald", er þá nokkuð að því að þiggja af honum pening?
Bill Gates og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna
Hvenær kæmi þá að því, spurðu aðrir, að við færum að haga málflutningi okkar á þann veg að við styggðum ekki velgjörðarmann okkar, Bill Gates? Á sama hátt má beina spurningu til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna á Íslandi: Er alveg sama hvernig peningum til barnahjálpar er safnað? Ég er ekki í vafa um að börnin í Gíneu-Bissá kæra sig kollótt um það hvernig fjármununum sem þau fá send er aflað. En gætu fjáröflunarleiðir UNICEF orðið þess valdandi að samtökin réðust síður í verkefni sem ganga gegn hugmyndum og hagsmunum hinna auðugu velgjörðarmanna en ella hefði orðið? Spyr sá sem ekki veit, en hefur engu að síður óþægilegar grunsemdir um að þetta kunni að vera raunin.
Áfram má spyrja og nálgumst við nú kjarna máls: Getur verið að hagsmunum lítilla fátækra barna í Afríku væri best borgið með því að koma böndum á heimskapítalið; að þegar allt kemur til alls skipti kannski meira máli hvað Ísland segir á fundum Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar en hversu miklum peningum okkur tekst að afla með hjálp Rogers Moores lávarðar? Alþjóðaviðskiptastofnunin fundar í Hong Kong um miðjan mánuðinn. Þar reisir heimsauðvaldið kröfu um frekari einkavæðingu almannaeigna í þróunarlöndunum. Eitt er víst að ef sú krafa nær fram að ganga kæmi það sér ekki vel fyrir fátæk börn í Gíneu-Bissá.
Vel mælt hjá Matthíasi
Á meðan þessu öllu vindur fram munu peningamennirnir og stuðningsmenn þeirra halda áfram að deila um það hver sé bestur, hverjir séu gott auðvald og hverjir slæmt auðvald. Þótt ég telji Matthías Johannessen ganga of langt í fullyrðingum um góða menn og slæma, vil ég engu að síður taka undir með honum að máli skiptir hvernig farið er með peninga og völd. Og það er líka eflaust rétt hjá honum og reyndar mjög vel sagt, að "sá sem selur virðingu sína er fátækari en fátækasti öreigi landsins."