Fara í efni

HVER ER SKOÐUN PÍRATA?

Ég var að lesa pistil þinn um mál/fréttaflutning um Evrópuráðið. Ég er sammála þér um að frétta/málflutningurinn fer fram úti á þekju eins og þú orðar það. Hvers vegna var Þórhildur Sunna, Pírati ekki spurð í RÚV hvað henni finnist um brottrekstur Rússa af Evrópuráðsþinginu? En við hvern er að sakast, þegar svona ruglumræða kemur upp, viðkomandi kjörna fulltrúa eða fjölmiðla?
Jóhannes Gr. Jónsson

Það er við báða að sakast. Þingmaðurinn sem vísað er til í frétt Ríkisútvarpsins, hefur greinilega verið staddur að fjallabaki og fjölmiðillinn einnig.
Það voru þingmenn Evrópuráðsins sem ráku Rússa af þingi Evrópuráðsins en ekki ríkisstjórnir aðildarríkjanna þótt eflaust með þeirra velþóknun og jafnvel að þeirra áeggjan. En það eru engu að síður þingmenn Evrópuráðsþingsins sem eiga að vera ábyrgir gjörða sinna og að þeim á að beina umræðunni og gagnrýni ef um slíkt er að ræða.
Þannig að Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra, er frír í þessu máli. Hins vegar væri fróðlegt að heyra skoðun hans á því hve hyggilegt hafi verið að reka alla rússneska þingmen á dyr í Strassborg. Og hvað skyldi Pírötum finnast?
Ögmundur