HVER GEFUR HVERJUM?
Birtist í Morgunpósti VG 14.02.05.
Að mörgu leyti hafa undanfarnir dagar verið góðir fyrir peningamenn þessa lands. Landsbankinn sýndi tugmilljarða gróðatölur og stjórnarformaðurinn, Björgólfur eldri, fékk tækifæri til að segja að svona gerðist þegar ríkisbankar væru "leystir úr læðingi". Forsætisráðherrann tók síðan í sama streng á þingi hjá Verslunarráðinu þar sem hann talaði um mikilvægi þess að halda áfram að einkavæða, og hve vel hefði tekist til í þeim efnum; nú væri um að gera að gefa "atorkumönnum" lausan tauminn.
Þegar frumkvöðlar horfa heim
Síðan fékk Björgólfur yngri sviðið í Hátíðasal Háskóla Íslands til að koma færandi hendi til skólans með digra sjóði. Reyndar kom fram að þetta voru alls ekkert hans peningar – þótt hann væri kynntur til sögunnar sem veitandinn – heldur Vestur-Íslendingar sem á sínum tíma vildu stuðla að því að Íslendingar ættu skipafélag og háskóla. Svo höfðu þeir búið um hnútana á sínum tíma með framlagi sínu til Eimskipafélagsins, að fjármunirnir skyldu þegar fram liðu stundir renna til Háskóla Íslands. Þessi fjárveiting nú væri í samræmi við tíðarandann sagði hinn ungi Björgólfur og líkti sér við Vestur Íslendingana. Eins og þeir væri hann "frumkvöðull", sem byggi í útlöndum en "horfði heim". Nema hvað, Vestur-Íslendingarnir höfðu viljað leggja sitt af mörkum til að Íslendingar ættu skipafélag, nokkuð sem Björgólfi jr. þykir ekki passa inn í "tíðarandann" nú um stundir. Þannig hætti Eimskipafélagið strandsiglingum við Ísland í haust og við hina hátíðlegu athöfn í Hátíðasal Háskólans sl. miðvikudag, þegar skólanum var veittur aðgangur að fjármunum Vestur-Íslendinganna, minnti Björgólfur, sem er stjórnarformaður Burðaráss, eiganda Eimskipafélagsins, á að nýir tímar væru runnir upp: "Hingað til hefur sjóðurinn verið með fjármuni sína bundna í eða í vörslu skipafélags. Það félag hefur hins vegar tekið miklum umskiptum að undanförnu, enda erum við núna orðin fjárfestingarfélag, sem hefur það að meginmarkmiði að fjárfesta erlendis." Já það var þetta með að horfa heim!
Góðu mennirnir
Þótt Björgólfur jr. afhendi Háskólanum aðgang að peningasjóði Vestur-Íslendinganna, mun hann að sjálfsögðu verða stjórnarformaður sjóðsins, og þannig áfram veitandi. Það er væntanlega í stíl við hinn nýja tíðaranda.
Nýi tíminn sem Sjálfstæðisflokkurinn, með dyggilegri aðstoð Framsóknar hefur verið að innleiða, einkennst af því að létta öllum kvöðum af fjármálafyrirtækjum og peningamönnum og gera þeim þannig kleift að gerast veitendur á sviði menningar og lista. Á meðan veslast upp allt sem er samfélagslegt og þrengt er að lýðræðislegri ákvarðanatöku. Í vikunni var það Tosca-óperan, þar sem Björgólfur eldri var góði maðurinn, auk viðhafnarsýningarinnar í Háskóla Íslands, sem fangaði augu þjóðarinnar.
Halldór Ásgrímsson sagði okkur síðan á Alþingi að allt fólkið í landinu væri afskaplega ánægt með þessa þróun. Hann var þá nýkominn af fundi Verslunarráðsins. Þar var fjölmennt. Ekki mun þó allt fólkið í landinu hafa verið til staðar.
Fréttatilkynning ReykjavíkurAkademíunnar
Öllu þessu reynir maður að taka með stóískri ró. Ég skal þó játa að ég er hugsi yfir oflátungshættinum í þessum mannskap og þeirri lítilsvirðingu sem félagslegu framtaki er sýnd. Og ég skal fúslega viðurkenna að ónotaleg tilfinning greip mig við lestur DV sl. föstudag. Undir fyrirsögninni, Stóru menninrnir efla andann, vitnar blaðamaður DV í svohljóðandi yfirlýsingu frá ReykjavíkurAkademíunni: "Stjórn ReykjavíkurAkademíunnar fagnar því framtaki Eimskipafélags Íslands að styrkja Háskóla Íslands með jafn stórmannlegum hætti og það hefur gert, með því að veita 500 milljónum króna til uppbyggingar háskólatorgs og 100 milljónum króna árlega til styrktar doktorsnemum við skólann. Þetta gerir félagið með því að blása lífi í háskólasjóðinn sem var stofnaður fyrir áratugum. Gagnstætt því sem tíðkast víða erlendis er enn sjaldgæft að íslensk fyrirtæki styrki stofnanir á sviði fræða, menningar og lista jafnmyndarlega og fyrirtæki Björgólfsfeðga hafa gert síðustu misseri. Auk þess að styrkja háskólann hafa fyrirtæki í þeirra eigu styrkt listamenn Klink og Bank og fleiri, með tugmilljóna króna framlögum. Stjórn ReykjavíkurAkademíunnar vekur athygli á því að skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir verulega á liðnum árum. Það er gleðiefni að fyrirtæki noti það svigrúm sem þannig skapast til að styrkja menntun, menningu og listir í landinu."
Engu við að bæta?
Blaðamaður DV segir í niðurlagsorðum eftir þessa lofgjörð: "Við þetta er engu að bæta." Sjálfur tel ég ýmsu við þetta að bæta en læt nægja að þakka Reykjavíkurakademíunni fyrir að benda á samhengið á milli skattalækkana á fyrirtæki og fjármagn annars vegar og velsældar peningamanna hins vegar. Í næstu fréttatilkynningu væri fróðlegt að fá analýsu á valdatilfæslur í þjóðfélaginu auk þess sem minna má á það hverjir eiga verðmætin sem eru til skiptanna í þessu landi og hverjir það eru sem sölsað hafa þau undir sig. Meira að segja gjöf Vestur-Íslendinga fyrir nokkrum áratugum er nú orðin að "myndarlegu " framlagi Björgólfsfeðga til Háskóla Íslands! Alla vega þarf að hafa það rétt hver það er sem gefur hverjum.