Hver skyldi vera tímaskekkjan Bjarni Ármannsson?
Í morgunútvarpi var viðtal við Bjarna Ármannsson bankastjóra Íslandsbanka. Hann sagði lán úr opinberum Íbúðalánasjóði "leifar frá gömlum tíma". Þetta væri í lagi fyrir afmarkaðan hóp eins og á landsbyggðinni. Öðrum ætti ekki að "tryggja vexti á ríkiskjörum". Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að rugla mikið. Íbúðalánasjóður er sjálfbær sjóður sem aflar lánsfjármagns á markaði eins og bankarnir! Hann fær hins vegar hagstæð lán í krafti stærðar. Verði honum gert að þjóna einvörðungu svæðum þar sem veð eru ótrygg þá munu vextir hans hækka og verða hærri en aðrir bjóða á markaði. Vill Bjarni Ármannsson þetta? Vill hann þá að skattborgarinn styrki dreifbýlið? Hvaða tímaskekkju er hann að tala um eiginlega? Jafnvel þótt Íbúðalánasjóður væri með niðurgreidda vexti vegna ákvörðunar samfélagsins þá væri það engin tímaskekkja að mínu mati. En svo er nú einu sinni ekki. Staðreyndin er sú að hagsmunagæslumenn fjármagnsaflanna eru tímaskekkjan í okkar samfélagi. Þeir vilja stefna samfélaginu aftur til fortíðar.
Hafsteinn Orrason