Fara í efni

HVER SVARI FYRIR SIG

DV
DV

Birtist í DV 04.02.11.
DV hefur gert margt ágætt í seinni tíð og er blaðið mikilvægur hluti af fréttakerfi landsins - ekki síst þegar kemur að upplýsingum/uppljóstrunum um fjármálamisferli. Þess vegna vil ég taka blaðið alvarlega þótt ég sé ekki alltaf sammála því frekar en að ég geri kröfu um að blaðið sé sammála mér. Við eigum að geta skipst á rökum af sanngirni.
Leiðarahöfundur DV fór mikinn sl. miðvikudag um viðbrögð mín við ákvörðun Hæstaréttar vegna stjórnlagaþingskosninganna. Var þar talað um „sekt Ögmundar", „pólitíska ábyrgð á lögbrotum" og að ég sem ráðherra hafi „engan rétt á því að kvarta" yfir ákvörðun Hæstaréttar.
Með skrifum sínum tekur leiðarahöfundur óbeint undir kór þeirra sem krafist hafa afsagnar minnar úr embætti innanríkisráðherra. Í þeim kór syngja nokkrir af fyrrverandi ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þeir Þorsteinn Pálsson, Halldór Blöndal og Björn Bjarnason, en svo hefur verið að skilja á skrifum þeirra að allir hafi þeir verið sérlega vandir að pólitískri virðingu sinni í gegnum tíðina. Björn Bjarnason gengur svo langt að segja að sjálfur hefði hann „tekið pokann sinn" ef annað eins hefði gerst á hans vakt.

„Verst að það var ekki Ögmundur"

Leiðarahöfundi DV klígjar að sönnu við þessari yfirlýsingu Björns Bjarnasonar í ljósi sögunnar. En leiðarahöfundur segir engu að síður og réttilega að hræsni annarra hreinsi mig ekki af ábyrgð: 
 „Ögmundur hafði val. Hann gat stigið fram fyrir skjöldu og axlað pólitíska ábyrgð á lögbrotum ráðuneytis síns, jafnvel þótt honum þætti Hæstiréttur ganga of langt, eða stokkið ofan í skotgröfina. Hann gerði það síðarnefnda. Auðvitað kemst hann upp með þetta. Það heyrir til algerra undantekninga þegar ráðherrar axla ábyrgð á mistökum sem verða innan þeirra ábyrgðarsviðs. [...]Ísland væri betra land ef endurreisnin hefði verið leidd af stjórnmálamönnum sem þorðu að stíga fram í einksismannslandið og axla ábyrgðina, þó það væri ekki nema til að veita gott fordæmi, breyta íslensku stjórnmálasiðferði og veita ábyrgðinni axlir til að hvíla á. Því fleiri sem stíga fram í einskismannslandið, þess færri verða eftir í skotgröfunum. En einhver verður að byrja. Verst að það var ekki Ögmundur."

Gleymist allt?

Það er nefnilega það. En það skyldi þó aldrei hafa verið Ögmundur sem byrjaði?
Nú vill svo til að þessa dagana er verið að samþykkja nýja útgáfu af Icesave samningnum, útgáfu sem sparar ríkissjóði gríðarlegar fjárhæðir frá því sem áður lá á vinnsluborðinu og varð þess valdandi að ég tók ákvörðun um að segja af mér ráðherraembætti, því farið hafði verið fram á að ríkisstjórnin öll talaði einu máli. Það var ég ekki reiðubúinn að gera. Gekk ég því úr ríkisstjórn og beitti mér gegn samningnum ásamt fleira fólki úr mínum flokki og stjórnarandstöðu - góðu heilli einsog nú hefur komið í ljós.
Allt þetta kom fram á sínum tíma og olli heiftugum viðbrögðum margra stuðningsmanna hins gamla Icesave-samnings, þar á meðal á þessu blaði. Það kemur því úr hörðustu átt þegar DV sendir mér tóninn á þann hátt sem Jón Trausti Reynisson ritstjóri gerir, rétt einsog þessi saga sé honum að öllu ókunn. Getur það verið að við lifum í sögulegu tómarúmi þar sem allt sem gert er þurrkast umsviflaust út? Það setur að mér hroll því við slíkar aðstæður er hægt að segja hvað sem er og gera hvað sem er í trausti þess að allt gleymist.

Afsögn hefði verið óábyrg

Það breytir ekki hinu að dómur Hæstaréttar og viðbrögð mín eru sjálfstætt mál sem ber að skoða sem slíkt. Ég hef sagt og segi enn að ég tel að Hæstarétti hafi orðið á í ákvörðun sinni og er ég þar á sama máli og fjöldi lögspekinga. Sýnist mér þeim fara fjölgandi sem eru þeirrar skoðunar. Það breytir því ekki að úrskurðinum hlítum við til hins ítrasta á sama hátt og við förum að þeim landslögum sem við erum ósátt við. Þar er ég sammála leiðarahöfundi DV að við hlítum okkar Hæstarétti, enda hef ég aldrei sagt annað. Þannig og aðeins þannig varðveitum við réttarríki á Íslandi. Það breytir því ekki að lög - og einnig dóma og úrskurði ­- má ræða og á að ræða. Ekki síst eiga þeir sem krafðir eru um afsögn úr embætti vegna  slíkra úrskurða rétt á því að segja sína skoðun.
Ég axla pólitíska ábyrgð mína með því að leiðrétta þær brotalamir sem Hæstiréttur finnur að og fara þannig að úrskurði hans, auk þess sem ég geri mitt til að niðurstöðu hans sé fylgt eftir. Afsögn myndi ég hins vega aðeins íhuga ef ég teldi ótvíræða sök hvíla hjá mér. Til slíkrar sektar finn ég ekki og hef ég með rökum gert grein fyrir þeirri afstöðu minni og tel hana fyllilega málefnalega. Reyndar geng ég svo langt að segja að afsögn hefði sett þetta mál í fullkomlega rangt samhengi og verið óábyrg.

Rétta tilefnið fundið?

Þótt sérhvert mál sé einstakt þá hljótum við að skoða þau í víðara samhengi þegar viðbrögð við afsagnarkröfu eru rædd. Þá hljóta menn að horfa til tilvika þar sem samsvarandi kröfur eru reistar - eða hafa ekki verið reistar (sem er umhugsunarefni út af fyrir sig). Hér er þá komið að ritstjóra DV. Er til of mikils mælst að hann geri skilmerkilega grein fyrir þeim brotum sem honum finnst ég ábyrgur fyrir og gera mig að sekum manni? Hvernig átti ég að axla ábyrgð með öðrum hætti en ég hef þegar gert? Eða getur verið að kröfugerðarsöngur hinna vammlausu um afsögn mína úr embætti innanríkisráðherra hafi náð eyrum leiðarahöfundar þannig að hann syngur hugsunarlaust með?
Ekki hef ég oft séð kröfur reistar á hendur ráðherrum um afsögn í seinni tíð, hvorki í þessu blaði né annars staðar. Spurning hvort menn hafi nú fundið rétta tilefnið? Þeirri spurningu svari hver fyrir sig.