Hver verður framvindan í Írak?
Æðstu menn Bandaríkjanna og Bretlands fögnuðu því mjög ákaft þegar synir Saddams Husseins, þeir Udday og Quasy, voru skotnir til bana í vikunni. Einhvern tímann hefðu forsvarsmenn þessara ríkja sagt að þeir hörmuðu að mennirnir hefðu verið drepnir án þess að áður hefði verið réttað í máli þeirra. Það ættu að vera grundvallarreglur réttarríkis. Slikum viðhorfum er ekki að heilsa nú. Menn eru skotnir á færi við fagnaðarlæti æðstu stjórnenda í okkar heimshluta. Í dag birtist hér á heimasíðunni nýr pistill frá Magnúsi Bernharðssyni, einum helsta sérfræðingi íslenskum í málefnum þessa heimshluta. Hann veltir vöngum yfir líklegri framvindu í Írak og kemur þar margt fróðlegt fram. Fyrir Bandaríkjamenn verður staðan sífellt erfiðari viðfangs og er ljóst að þeir ráða ekki við ástandið þrátt fyrir mikinn fjáraustur. Hersetan, segir Magnús, að kosti Bnadaríkjamenn 4 milljarða dollara á hverjum mánuði, sem samsvarar 360 milljörðum íslenskra króna. Þetta minnir óneitanlega á Víetnam stríðið, en það stríð töldu Bandaríkjamenn sig í upphafi geta unnið með járni, blóði og dollurum. Reyndin varð önnur.