Fara í efni

HVERJIR ERU KOSTIRNIR? HVAR ER VERKALÝÐS-HREYFINGIN?

Kæri Ögmundur...
Sumir hafa verið að nota handbolta og knattspyrnuleik til að lýsa fjárhagsástandinu í dag, en ég næ því engan veginn. Ég vil benda þér og þeim á, sem lesa vefsíðu þína, að það er hvorki grín né leikaraskapur sem hefur átt sér stað og á sér stað enn.
Ég vil frekar nota samlíkingu ástandsins við að manneskjukjáni hafi verið narraður út í síki og sé kominn upp í háls í hyldýpis-síkinu, og sé nú að hugsa sig um hvort hann eigi að fara lengra í von um að ná fótfestu og gullsjóðnum hinum megin, eða að ganga aftur á bak uppá bakkann sem hann kom frá, þar sem hann veit um góða fótfestu þó minni sé vonin um gullsjóð!
Grundvallarspurningin sem fólk veltir fyrir sér í alvöru og í síauknum mæli, hvort sem það gerir sér það ljóst eða ekki, er hvort eigi að fara fjárglæfrabrautina áfram, eða að hörfa aftur til þess tíma að við vorum ekki í EES, og að villimennska stjórnlausrar einkavæðingarinnar hafði ekki náð tangarhaldi á þjóðfélaginu.  Jú, sumir vilja standa í stað, trúa ekki raunveruleikanum í síkinu og vilja bara hugsa sig um!  Hvað um þá sem nörruðu þá, ja kannski að þeir hafi meint vel en hafa ekki vitað hvað síkið var djúpt. Kannski að þeir hafi ekki vitað hvað þeir voru að gera. Öllum getur skjátlast og maður má ekki dæma fólk nema að hafa verið í þeirra sporum.
Málið er Ögmundur að staðreyndin blasir við okkur, við verðum að koma eða fara ef við ætlum ekki að krókna og drukkna í síkinu!
Teljum við að við getum haldið áfram með því að taka himinhá lán í útlöndum, jafnvel af óvinum okkar sem girnast auðæfi föðurlandsins og er skítsama um Íslendinga sjálfa, þó við gætum ekki greitt einu sinni vextina í besta góðæri. Eigum við að reyna að hneigja okkur og beygja auðmjúklega fyrir útlendum yfirdrottnurum og jafnvel að skríða enn lengra upp í endaþarm þeirra og íslenskra skósveina þeirra?  ESB býður átekta og við vitum hverjir skilmálarnir eru, þeir hafa sagt okkur þá, og Kaninn býður átekta svo lítið ber á, en við erum minnt á það af huggulegum skósveinum þeirra öðru hvoru.  Svo bregða þeir og Englendingar grímu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrirsig. Hann er þeirra stofnun!
Eigum við bara að hugsa málið?
Eða eigum við að hörfa til betri, félagslegri, mannlegri og þjóðlegri tíma, þegar við klæddumst stakk eftir vexti og við gátum ráðið við vandamál okkar, og gátum jafnvel staðið upp í hárinu á ásókn stórvelda ?
Eitt er fyrir víst Ögmundur, að við verðum að sækja að meintum heimabökuðum glæpamönnum,,,  og það er í sjálfu sér stórglæpur að þeir gátu framið glæpi sína, og að þeir hafi ekki verið teknir í karphúsið strax eftir hrunið, eða jafnvel fyrr!
Að láta þá ganga lausum hala um götur bæjarins og séu jafnvel enn í ofurlaunuðum ábyrgðarstöðum, er stórglæpur í sjálfu sér!  Meintum glæpamönnum er gert kleift að fela  illafengið þýfi, eigna sér heimili erlendis og eyðileggja gögn sem sanna glæpina á þá, ásamt að búast til lögfræðilegra varna gegn hverskonar ásókn stjórnvalda fyrir hönd íslenska ríkisins, þ.e. almennings landsins!  Hafðu í huga að þýfið er einhverstaðar í einhverju formi. Stórhýsi, dýrir bílar, einkaþotur og gnægðarlíf eru vísbendingar!  Svo eru erlendu leyni bankainnistæðurnar!  Eitt er víst Ögmundur, að fúlgurnar hafa ekki gufað upp! 
Ég er ekki eingöngu að ræða um auðséða meinta glæpamenn, svindlara og þjófa, ég er einnig að ræða um stjórnmálamenn sem gerðu glæpamönnunum starfsemi þeirra mögulega, og eru enn að hlífa þeim, því þeir vita sökina á sjálfa sig. Þetta fólk er fullkomlega samsekt!
Svo að endingu Ögmundur, því situr verkalýðshreyfingin á höndum sér?  Því er hún ekki samtaka, og samfara fólkinu sem hættir aleigu sinni og lifibrauði ásamt lífi og limum í andhófi sínu á götum úti?  Hvar er verkalýðshreyfingin?  Er mögulegt að verkalýðshreyfingunni sé stjórnað af ríkisstjórnarflokkunum?  Ég veit að þú ert það ekki né BSRB, þitt félag, en hvað með hina?  Og, ég er viss um að Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins lætur auðvaldspakkið ekki stjórna sér?  En hvað með hina?
Ég vona bara að stjórnarandstaðan láti ekki plata sig með hugtakinu "þjóðarsátt" sem er ekkert annað en samsæri með stórseku auðvaldinu, bara til að fá að vera með og gerast samsekir ríkisstjórnarflokkunum!
Baráttukveðja,
Úlfur