Fara í efni

HVERJIR VILDU ÞJÓÐARATKVÆÐAGREÐILSU UM KÁRAHNJÚKA?

Sæll Ögmundur.
Það er deginum ljósara að vakning er að eiga sér stað í þjóðfélaginu varðandi stóriðjufárið. Hver blaðagreinin birtist nú af annarri – og hver annarri betri – eftir fólk sem lagt hefur undir fót landið sem fer undir virkjunarlónið við Kárahnjúka. Þessu fólki ofbýður og vill að hætt verði við að breyta rennsli Jöklu með tilheyrandi umhverfisspjöllum. Óskandi hefði verið að þessi vakning hefði orðið fyrr. Mér er það hulin ráðgáta hvers vegna í ósköpunum Alþingi dirfðist að fella tillögu VG um þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar framkvæmdir á sínum tíma. Látum vera að þingmenn væru prívat og persónulega þeirrar skoðunar að það bæri að virkja við Kárahnjúka. En að sjálfsögðu átti að leyfa  okkur – þjóðinni – að ráða í þessu mikla deilumáli! Ég fletti upp á þessari atkvæðagreiðslu á vef Alþingis og sé þar að enginn (!!!!) utan VG treysti sér til þess að greiða þessari tillögu atkvæði. Skyldi umhverfissinnað fólk muna þetta í næstu kosningum? Hér má sjá atkvæðagreiðsluna um nefnda tillögu: http://www.althingi.is/dba-bin/atkvgr.pl?nnafnak=29105
Með kveðju,
Sunna Sara