HVERJIR VILJA HÁTT VÖRUVERÐ, MIKLA VERÐBÓLGU OG HÁA VEXTI?
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 15.06.14.
Ég?
Svo er að skilja að það sé svarið við spurningunni í fyrirsögninni. Mér skilst að undirritaður vilji allt þetta þrennt. Alla vega var fullyrt í fréttaþætti á RÚV í vikunni að við sem erum andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu, óskuðum beinlínis eftir þessari þrenningu, háu vöruverði, mikilli verðbólgu og háum vöxtum. Allt þetta þætti okkur sérstaklega eftirsóknarvert og einmitt þess vegna hefðum við skipað okkur í raðir andstæðinga ESB aðildar. Aðild að ESB myndi hins vegar tryggja hið gagnstæða! Ekki var svo mikið sem hváð í fréttaþættinum þar sem þessu var blákalt haldið fram sem hverjum öðrum augljósum sannleika.
Nú er vöruverð mishátt innan Evrópusambandsins, sums staðar er vöruverð lágt, annars staðar hátt, sama á við um vexti eins ótrúlegt og það kann að hljóma eftir allar fullyrðingarnar um að til séu staðlaðir Evrópuvextir á neytendamarkaði og að þeir séu nánast við núllmarkið. Stýrivextir á Evrusvæðinu eru nú að sönnu lágir til að sporna gegn samdrætti og stórauknu atvinnuleysi.
En þrátt fyrri það eru markaðsvextir innan ESB til bæði lágir og háir. Í heimi stjórnmálanna á Íslandi þykja lágir vextir eftirsóknarverðir, alla vega á góðri stundu þegar höfðað skal til lántakenda. Á því eru þó frægar undantekningar, til dæmis þegar bankarnir reyndu að knésetja Íbúðalánasjóð um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar og til stóð að sjóðurinn svaraði fyrir sig og byði upp á rýmkun lána á hagstæðum vöxtum. Þá kvað við mikið ramakvein frá bönkunum - hinum sömu og vildu Íbúðalánasjóð feigan - og heyrist bergmálið af því kveini enn. Lágir Íbúðalánasjóðsvextir - gagnstætt lágum Evrópuvöxtum - þóttu nefnilega til þess fallnir að auka þenslu.
Fyrir þá lesendur sem eru ekki alveg búnir að ná þessu, þá þóttu lágir Íbúðalánasjóðsvextir efnahagslegt skaðræði en lágir Evrópuvextir allra meina bót. Undir þetta tóku ekki ómerkari aðilar en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og OECD. Lántakendur vildu hins vegar bara lága vexti!
Sjálfur hef ég alla tíð barist gegn hávaxtastefnu þrátt fyrir fullyrðingar nú um hið gagnstæða. Ég hef heldur ekki verið sérstakur aðdáandi mikillar verðbólgu þótt verst þyki mér atvinnuleysið.
En hver eru það sem leyfa sér að fullyrða út í loftið um afstöðu okkar sem höfum efasemdir um ágæti ESB aðildar fyrir Ísland?
Í nýliðinni viku steig fram á sjónarsviðið pólitískur áhugahópur sem nú undirbýr stofnun stjórnmálaflokks sem hafi aðild Íslands að ESB að meginmarkmiði .
Í kjölfar fundahalda hópsins fengum við kynningu á stefnu hans en þó ekki síður á afstöðu okkar sem erum á öndverðum meiði.
Mér finnst ágætt að hreyfing sé á flokkakerfinu, nýir flokkar fæðist og gamlir deyi drottni sínum, smækki eða stækki eftir atvikum. Stjórnmálaflokkar mega aldrei verða að stöðnuðum stofnunum sem stuðningsfólkið heldur tryggð við af löngu gleymdri ástæðu; sé þarna af gömlum vana, áður hafi pabbi og mamma fylgt flokknum og kannski afi og amma.
Þess vegna er ekkert nema gott um það að segja þegar hægri sinnað áhugafólk um inngöngu Íslands í Evrópusambandið stofnar stjórnmálaflokk um þetta brennandi áhugamál sitt.
En ekki lofar það góðu að hefja vegferðina á útúrsnúningum og rangtúlkunum á afstöðu þeirra sem eru á öndverðum meiði.
Svo það sé alveg skýrt, og svo ég leyfi mér að tala fyrir eigin hönd, þá vil ég hagstætt vöruverð, litla verðbólgu og lága vexti. Ég vil líka lítið atvinnuleysi, minna en er gegnumgangandi í ESB, rýmri möguleika til þjóðaratkvæðagreiðslna en ESB býður upp á, minni miðstýringu og meiri dreifstýringu en gerist í ESB, með öðrum orðum ég vil meira lýðræði.