Fara í efni

HVERN EÐA HVERJA ÉG VIL FÁ SEM ÚTVARPSSTJÓRA

Ég gæti þess vegna svarað spurningunni strax og nefnt einstaklinga á borð við Þorstein frá Hamri eða Jóhönnu Kristjónsdóttur, góða talsmenn íslenskrar menningar, frjálsrar hugsunar; einstaklinga sem ég er sannfærður um að yrðu verðugir málsvarar Ríkisútvarpsins. Þetta yrðu útvarpsstjórar í hefð Andrésar Björnssonar. En ekkert er einhlítt í þessu efni. Þannig var Andrés Björnsson í hugum flestra fyrst og fremst maður sögu og menningar, íslenskrar tungu og ljóðlistar. Hann var maður hins Talaða orðs en það var einmitt heiti bókar sem út var gefin með áramótaávörpum hans sem á sínum tíma greyptu sig inn í þjóðarsálina.

En Andrés Björnsson átti fleiri hliðar. Ég veit ekki hve margir gera sér grein fyrir því að sennilega var hann fyrsti fjölmiðlamenntaði einstaklingurinn í landinu. Og það var í útvarpsstjóratíð hans sem Rás 2 var opnuð, vissulega fyrir stuðning og að einhverju leyti þrýsting margra ágætra starfsmanna og aðila utan stofnunarinnar, en engu að síður undir forystu hans. Þetta nefni ég aðeins sem dæmi um hve vafasamt það getur verið að einblína á ímynd manna og láta undir höfuð leggjast að gaumgæfa verk þeirra. Andrés Björnsson var nefnilega ekki einvörðungu maður orðsins, hann var einnig framsýnn stjórnandi Ríkisútvarpsins, með skýra sýn á framtíð þess í þjóðfélagi mikilla breytinga.

Á sama hátt átti Markús Örn Antonsson, eftirmaður Andrésar sér fleiri en eina hlið, en því nefni ég hann til sögunnar að þetta eru þeir tveir útvarpsstjórar sem ég hafði beina reynslu af sem starfsmaður Ríkisútvarpsins um alllangt árabil. Mörg okkar í starfsliði stofnunarinnar höfðum horn í síðu Markúsar Arnar þegar hann varð útvarpsstjóri. Hann hafði staðið framarlega í stjórnmálabaráttunni og gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sumum býsna umdeildum, til dæmis sem formaður útvarpsráðs i hatrömmu verkfalli árið 1984. Þótt Markús Örn hafi verið umdeildur undir lok útvarpsstjóraferils síns, og hef ég getað tekið undir margt í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið í hans garð, þá verður það að segjast eins og er að Markús Örn Antonsson vann með verkum sínum traust okkar starfsmanna mjög fljótlega eftir að hann var skipaður útvarpsstjóri árið 1985. Gagnstætt því sem við höfðum ætlað reyndist hann vera talsmaður Ríkisútvarps af heilindum og í ýmsum efnum hefur hann sýnt jákvæðar hliðar sem menn höfðu almennt ekki vænst af honum. Að þessu hefur oftar en einu sinni verið vikið á þessari heimasíðu.

Pólitískur stimpill reyndist Markúsi Erni Antonssyni þannig ekki fjötur um fót þrátt fyrir miklar efasemdir okkar sem höfðum ýmsa hildina háð við pólitíkusinn Markús Örn. Því er hins vegar ekki að neita að fréttastjóramálið á þessu ári hefur truflað þessa mynd.

Er þá komið að tildrögum þess að ég sest við skriftir þessa pistils. Í blaðaskrifum að undanförnu hefur talsvert verið fjallað um verðandi útvarpsstjóra. Hann þarf að vera afburðamaður, segir Margrét S. Björnsdóttir í miðopnugrein í Morgunblaðinu nýlega og Sveinn Einarsson segir í grein sem birtist á sama stað nokkrum dögum síðar að nýr útvarpsstjóri þurfi að vera "gæddur miklum eðliskostum." Ég skal játa að ég hef jafnan nokkrar efasemdir um allt tal um afburðamenn og leiðtoga því ég vil framar öllu leggja upp úr þeirri hugsun að Ríkisútvarpið, sem og aðrar stofnanir, byggi fyrst og fremst á því fólki sem þar starfar, þeim hefðum sem þar hafa myndast, þeim skyldum sem stofnuninni er ætlað að rækja og viljanum á meðal starfsmanna almennt að gera betur í dag en í gær.
Útvarpsstjóri, hversu mikill "afburðamaður" sem hann er, getur aldrei orðið annað en hlekkur í langri keðju, tannhjól í stóru gangverki. Það er hins vegar rétt að mikilvægt er að verkstjóri í þessari stóru stofnun, sem þarf að sinna mikilvægum ábyrgðarskyldum í þjóðfélaginu, sé góðum kostum búinn, bæði til þess að skynja menningarlegt og lýðræðislegt hlutverk sitt og þeirrar stofnunar sem hann starfar við og til þess að virkja samstarfsmenn sína til góðra verka.

Fyrir mitt leyti yrði ég ekki sjálfkrafa andvígur einstaklingi sem kæmi úr heimi stjórnmálanna, jafnvel þótt sá einstaklingur væri á öndverðum meiði við mínar stjórnmálaskoðanir – að öðru leyti en því að vilja Ríkisútvarpið í almannaeign og undir almannastjórn. Þetta er að sjálfsögðu lykilatriði. Fráleitt væri að velja til starfans einstakling sem ekki hefði þetta grundvallarsjónarmið. Menn mega ekki gleyma því að hin breiða sátt um Ríkisútvarpið  í þjóðfélaginu byggir á því að um raunverulega almannaeign sé að ræða og lagabreytingar sem skera á þessi tengsl eða veikja þau sundra sáttinni. Að öðru leyti get ég ekki fremur en aðrir gert kröfu um að ráðinn verði einstaklingur með sömu stjórnmálaskoðanir og ég. Slíka kröfu myndi ég reyndar aldrei reisa. Ef ég mæti viðkomandi einstakling svo að hann væri heiðarlegur, reiðubúinn að hefja fána Ríkisútvarpsins að húni í baráttu fyrir reisn og virðingu þessarar menningarstofnunar og mikilvæga fjölmiðils þá ætti sú persóna að öllum líkindum minn stuðning.

Útvarpsstjóri á að vera einstaklingur sem hefur sýnt djörfung og hug þar sem hann hefur látið að sér kveða. Við höfum engan áhuga á hlýðnum já-karli eða já-konu. Innan allra stjórnmálaflokka er að finna kröftuga einstaklinga: Fólk sem hefur sýnt og sannað að það stendur á sínu og lætur eigin stundarhag ekki villa sér sýn. Sem betur fer erum við minnt á það annað veifið að slíkt fólk er til – þótt stundum finnist manni þessi hópur sorglega lítill.