HVERN ER VERIÐ AÐ HAFA AÐ FÍFLI?
Birtist í Morgunblaðinu 09.11.06.
Í umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins eru þau rök einkum færð fram að hlutafélagaformið hafi sannað sig sem gott form í fyrirtækjarekstri. Undir það vil ég taka. Áður en hlutafélagaformið ruddi sér til rúms var iðulega erfitt að selja stór fyrirtæki, nokkuð sem reyndist auðveldara eftir að eignarhlutirinr urðu fleiri og smærri. Að þessu leyti hefur hlutafélagaformið auðveldað kaup og sölu fyrirtækja og þannig gert eignarhaldið sveigjanlegra. Annað er, að með hlutafélagaforminu hefur aðkoma eigenda að rekstrinum fengið ákjósanlegan farveg og eru hluthafafundir til marks um hvernig eigendur, stórir og smáir, geta veitt aðhald með því að pund þeirra sé vel ávaxtað í fyrirtækinu. Með skírskotun m.a. til þessa get ég heilshugar tekið undir að hlutafélagaformið er gott og hefur sannað sig.
Ef hins vegar um er að ræða stofnun sem ekki stendur til að selja og ef um það er að ræða að hlutabréfið verður aðeins eitt og í forsjá eins ráðherra, leyfi ég mér að spyrja hvort hlutafélagaformið sé heppilegt. Þetta stendur til að gera með Ríkisútvarpið nái frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Til stendur að gefa út aðeins eitt hlutabréf. Á hluthafafundinum verður því aðeins menntamálaráðherra eða fulltrúi hans til þess að ræða við stjórnarmenn (sem endurspegla stjórnarmeirihlutann í ríkisstjórn hverju sinni) og að sjálfsögðu útvarpsstjóra sem verður einráður yfir mannahaldi og allri dagskrárgerð. Mér væri þetta allt skiljanlegra ef til stæði að selja Ríkisútvarpið. Eða ef gert væri ráð fyrir nokkrum fjölda hluthafa sem veittu stofnuninni aðhald! Ekkert slíkt stendur til – að sögn. Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sverja og sárt við leggja að engin áform séu um fjölgun hluthafa, hvað þá um sölu hlutabréfa. Mér er spurn: Er verið að hafa einhvern að fífli?