Fara í efni

HVERN ÞARF AÐ RÓA?

Fréttablaðið birtir forsíðufrétt þar sem greinir frá því að fyrirhugaður sé fundur með fjármála- og félagsmálaráðuneytum til þess að „…koma ró á málefni Íbúðalánasjóðs.“ Við erum upplýst um að fjármálaráðuneytið hafi sóst eftir undirtökunum í rekstri sjóðsins með því að færa hann til Lánasýslu ríkisins. Fyrirsögn þessarar frásagnar er lýsandi: „fjármálaráðuneytið ásælist Íbúðalánasjóð.“

Ég efast hvorki um sannleiksgildi ofangreindrar fullyrðingar né nokkuð sem fram kemur í þessari forsíðugrein Fréttablaðsins. Þetta er vissulega mikilvæg frétt og forsíðunnar virði að fá að vita að eina ferðina enn eru bankarnir búnir að kasta stríðshanskanum. Nú á greinilega að láta reyna á nýja fjármálaráðherrann, Árna Mathiesen, hvort hann sé ekki liðtækur í slaginn sem bankarnir heyja í þágu hárrar arðsemisprósentu til sjálfra sín. Það sorglega er að barátta bankanna er háð gegn almenningi í landinu sem nýtur þess enn að ekki hefur að fullu tekist að brjóta niður alla félagslega viðleitni í húsnæðismálum. Því miður hafa verið unnin hrikaleg spellvirki á þessu kerfi í tíð stjórnarsamstarfs Framsóknar og Íhalds. Framsókn hefur verið gerandinn í eyðileggingunni en Íhaldið hönnuðurinn. Á undanförnum mánuðum hefur Árni Magnússon, félagsmálaráðherra Framsóknar, látið á sér skilja að hann vilji standa í fæturna og verður fróðlegt að fylgjast með því hvort að hann muni standast nýjar kröfur bankavaldsins, sem beitir fyrir sér nýjum fjármálaráðherra Íhaldsins í þessari síðustu atlögu gegn almannahagsmunum.

Á meðan við bíðum niðurstöðunnar væri gaman að fá fréttaskýringu fjölmiðla um þessi mál og er þá sérstaklega eftirsóknarvert að fá að vita hvað þurfi að gerast til að koma „…ró á málefni Íbúðalánasjóðs.“ Hvern þarf að róa?