Fara í efni

HVERNIG Á ÉG AÐ ARFLEIÐA NIÐJA MÍNA AÐ VATNINU?

Sæll Ögmundur.
Það er orðið langt síðan ég skrifaði þér síðast. Ástæðan er annir og samfellt ættarmót. Nýju vatnalögin hafa gert það að verkum að ótrúlegustu menn eru orðnir frændur mínir. Að vísu vissu þeir allir að stórfljót rennur undur jörð minni, einnig er óvenju mikil þoka viðvarandi hér í Snotru, eins og þú þekkir. Það er þessi önnur grein laganna:
2. gr.
Gildissvið. Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.”
Þá er það þetta í 1.gr
“Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns. Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.”
Ég gamli maðurinn veit til hvers vatn er nauðsynlegt og deili ekki þar um við frændur mína, enda veiti ég það óspart ómengað eða saman við annan óþvera svo sem kaffi te eða brennivín.
Reyndar tek ég til baka brennivínið, því það hefur verið fróðlegt að hlusta á þessa fursta einkaframtaksins, sem kalla sig Framsóknarmenn,- eftir einn eða tvo. Enda undraði mig ekki þegar feitasta rottan og snjallasta flúði hið sökkvandi skip hér í vikunni.
Hvað um það, vandræði mín og þunglyndi stafa af samningu erfðaskrár minnar, hvernig get ég arfleitt þjóð mína og íbúa jarðar að aðgangi að vatninu undir Snotru án endurgjalds.
Runki frá Snotru