Fara í efni

HVERNIG BNA OG ÍSRAEL HAFA LAGT SÝRLAND Í RÚST Í NAFNI FRIÐAR

Hér á síðunni undir yfirskriftinni Frjálsir pennar birti ég nýjustu grein Jeffrey D. Sachs prófessors við Columbia háskólann í New York. Titilinn á þessari grein sinni, á ensku, How the US and Israel Destroyed Syria and Called it Peace, sækir Sachs til rómverska sagnfræðingsins Tacitusar sem sagði á þá leið að ofbeldi, fjöldamorð og valdarán á fölskum forsendum kalli menn heimsveldi; og þar sem heimsveldið hafi lagt allt í auðn kallist friður, eða á ensku: “To ravage, to slaughter, to usurp under false titles, they call empire; and where they make a desert, they call it peace.”

Sachs hefur áður í skrifum sínum haldið því fram - sem hann enn gerir í þessari grein - að hugmyndafræðin að baki “valdhafaskiptum”, (á ensku “regime change”) eða tilraunum til slikra skipta í sjö ríkjum í Miðausturlöndum og Norður-Afríku hafi nú skilið milljón manns eftir í valnum og að ekki sjái fyrir endann á stríðsátökum í Líbíu, Súdan, Sómalíu, Líbanon, Sýrlandi og Pelstínu og fleiri ríkjum – allt sé þetta runnið undan rifjum hægri öfgamannsins Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, en Bandaríkin gangi erinda hugmyndafræði hans.

Í raun sé þetta sáraeinfalt: Stjórnvöld í Ísrael segist hafa rétt til yfirráða í allri Palestínu og yfir öllum Palestínumönnum. Þegar þessu hafi verið mætt með vopnaðri andstöðu kallist það hryðjuverk og Bandaríkjamenn þá kallaðir til svo umbylta megi öllum þeim ríkjum sem vogi sér að styðja slíka baráttu. Á þessi ríki sé miskunnarlaust ráðist og þau brotin á bak aftur.

Það hafi nú endanlega heppnast í Sýrlandi en aðdragandinn sé langur, eða allar götur frá því á tíunda áratugnum en með auknum krafti þegar Obama forseti fól bandarísku leyniþjónustunni, CIA, að fella ríkisstjórn Sýrlands. Stríð BNA, Ísraels og fleiri bandalagsríkja hafi blossað upp 2011 og 2012 en takmarkinu hafi ekki verið náð fyrr en nú með falli Assads – þetta hafi kostað 300 þúsund mannslíf og land í rúst eftir áratuga ófrið, óvægið viðskiptabann og olíuauðlindum landsins að auki stolið. Útslagið hafi gert að Rússar voru ekki lengur í færum að veita stuðning vegna Úkraínustríðsins og Hezbollah samtökin í sárum eftir linnulausar árásir Ísraels. Assad hafi vissulega oft farið illa með vald sitt og innanlands hafi verið mikil óánægja með stjórnarfarið en það breytti því ekki að Ísrael og Bandaríkin hafi ætlað honum að falla og allt gert til að stuðla að þvi.

Áður en aðförin að Sýrlandsstjórn hófst fyrir alvöru 2011 fór Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lofsamlegum orðum um stjórnarfar og efnahag Sýrlands. Í skýrslu frá AGS frá árinu 209 fékk Sýrlandsstjórn beinlínis klapp á kollinn fyrir að stíga markviss skref í átt til aukinnar markaðsvæðingar efnahagskerfisins og almennt vera á framfarabraut.

Frá þessum tíma hafi hins vegar hafist ofsóknir sem grófu jafnt og þétt undan efnahag landsins og gerðu þá velsæld sem fyrir var að engu.

Á fyrstu tveimur dögunum eftir fall Sýrlandsstjórnar gerðu Ísraelar 480 árásir víðsvegar um Sýrland, grönduðu sýrlenska flotanum, tóku yfir vopnlaust svæði ( „buffer zone“) á landamærum Ísrales og Sýrlands og lýstu Golan hæðirnar ísraelskar “um aldur og ævi.”

Á fréttamannafundi 9. desember réttlætti Netanjahu áframhald fjöldamorðanna á Gaza. Ef við hefðum hætt hernaði þar, sagði hann, þá hefðum við ekki náð þeim árangri sem við nú höfum náð.

Í grein sinni rekur Jeffrey Sachs síðan hvernig áætlun Ísraela (með stuðningi BNA) hafi tekið breytingum í þá átt að hverfa frá tveggja ríkja lausninni og í stað hennar koma á fót apartheid ríki undir stjórn Ísraela og setja síðan af allar þær stjórnir grannríkja sem andæfðu þessari stefnu.

Þetta væri mergurinn málsins að mati Netanjahus, baráttan ætti ekki að snúa að hryðjuverkamönnum einangrað heldur ríkjunum sem styddu þá. Án stuðnings ríkja mættu hryðjuverkmenn sín einskis.

Jeffrey Sachs rekur síðan á hvern hátt það hafi komið í ljós að “valdaskipti” í Sýrlandi og öðrum áður greindum ríkjum hafi alla tíð verið markmiðið. Vitnar hann í bækur og gefur upp slóðir með upplýsingum um þær. Einnig fjallar hann í grein sinni nánar um skyld stríð og segir að nú sé unnið að undirbúningi styrjaldar við Íran.


Eins undarlegt að það kunni að hljóma þá hafi Bandaríkjamenn oftar en ekki stutt baráttusveitir Íslamista en slíkir hafi nú tekið völdin í Sýrlandi. Þegar allt komi til alls þá hafi það verið CIA sem skóp al-Qaeda, því allar götur frá áttunda áratugnum fjármögnuðu Bandaríkamenn Mujaheddin samtökin í Afganistan. “Já, Osama bin Laden snerist á endanum gegn BNA en það voru engu að síður Bandaríkjamenn sem bjuggu til hreyfingu hans.”

Sachs rekur það í grein sinni hvernig allir þeir sem talað hafa fyrir samningaviðræðum og friði af hálfu Hezbollah samtakanna eða stjórnvalda í grannríkjum, nefnir hann þar Líbanon sérstaklega, þeir hafi einfaldlega verið ráðnir af dögum. Nefnir Sachs einstaklinga sem þannig hafa verið myrtir.

Allar tilraunir á vegum Sameinuðu þjóðanna eða annarra til að koma á samningum og friði í Sýrlandi hafa Bandaríkjastjórnir eyðilegat segir Jeffrey Sachs og rekur dæmi þar um. Vitnar hann síðan í ræðu Netanjahus á Allsherjarþingi SÞ í september síðastliðnum þar sem hann veifaði landalkorti af Mið-Austurlöndum sem sýndi hina góðu og hina slæmu. Sýrland og Líbanon hafi verið í sigti en það sem endanlega að væri stefnt væri stríð við Íran.

Allt byggist þetta á yfirgengilegu ranglæti, að svipta Palestínumenn frelsi og réttindum. Réttlætinguna sæki Zíonistar ti l trúarrita frá því í árdaga sem þegar allt komi til alls hvíli á allt öðrum sannleik en þeir vilja vera láta. Þetta skýrir Jeffrey Sachs nánar í grein sinni sem er að finna hér á ensku: https://www.ogmundur.is/is/frjalsir-pennar/how-the-us-and-israel-destroyed-syria-and-called-it-peace 

------------------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.