HVERNIG ÉG MYNDI EINKAVÆÐA RAFORKUKERFIÐ
Birtist í Morgunblaðinu 15.05.19.
Að uppistöðu til eru orkulindir og orkufyrirtæki í almannaeign á Íslandi. Við njótum þessara eigna í lágu verðlagi saman borið við það sem annars staðar gerist og við getum haft bein áhrif á hvernig með þessar eignir okkar er farið, einfaldlega vegna þess að þetta eru okkar eignir. Fyrir vikið er einkavæðing á þessu sviði óvinsæl.
Fari sér hægt
Fyrsta ráðlegging mín væri því að menn færu sér hægt við að koma eignarhaldinu í hendur fjárfesta, komist með öðrum orðum á endastöð í nokkrum skrefum, helst svo smáum að hvert skref virðist meinlaust. Þannig megi venja fólk við tilhugsunina um að fjárfestar hagnist á rafmagnsreikningum heimila og fyrirtækja. Þetta ráð er í góðu samræmi við ráðleggingu dr. Piries sem hingað kom undir lok aldarinnar sem leið í boði Verslunarráðs að ráðleggja um einkavæðingu á grunninnviðum samfélagsins.
Staðhæfa að markaðsvæðing sé góð!
Önnur ráðlegging væri að halda því stíft að fólki að markaðsvæðingu fylgi sjálfkrafa bætt kjör neytenda. Það verður að játast að á Íslandi gæti þetta reynst erfitt verkefni einfaldlega vegna þess að rafmagnsverð er lægra hér en gerist víðast hvar annars staðar og líklegt að samtenging við aðra markaði myndi leiða til hækkunar á raforkuverði hér. Sú áhætta væri því fyrir hendi að neytendasamtök litu á það sem skyldu sína að forða okkur frá þessari kerfisbreytingu.
Búa til samkeppniseiningar óháðar stjórnvöldum
Þriðja ráðlegging væri sú, og hún lýtur beint að framkvæmdinni, að búta niður allan rekstur sem ætlunin er að markaðsvæða niður í samkeppnishæfar einingar, aftengja jafnframt aðkomu stjórnmálanna en fela þess í stað stofnunum markaðskerfisins, samkeppnis- og neytendaeftirliti, umsjón og boðvald um að hvergi væri hallað á lögmál framboðs og eftirspurnar. Þetta skref myndi ég líta á sem forsendu þess að gerlegt væri einkavæða kerfið að fullu.
Ekkert kemur á óvart nema VG
Þetta er ekki frumleg hugsun af minni hálfu því nákvæmlega þessum ráðum hefur Evrópusambandið og svo, því miður, ríkisstjórn Íslands fylgt. Þetta verður auglóst þegar framvindan er gaumgæfð. Þar kemur ekkert á óvart nema að ekki hefði ég trúað því að óreyndu að Vinstrihreyfingin grænt framboð væri komin á þann stað sem hún er nú! Menn hljóta að spyrja hvort til standi að breyta nafninu í Hreyfingin, framboð? Þá þyrfti líka að breyta skammstöfuninni á heiti flokksins til samræmis.
Farið hægt í sakirnar
En lítum á hvernig til hefur tekist. Ákvörðun um markaðsvæðingu raforkunnar var af hálfu Evrópusambandsins tekin um miðjan tíunda áratuginn. Þá var afráðið að færa orkuna undir „fjórfrelsi“ markaðarins, þ.e. frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls. Þannig að þar á bæ kusu menn hægagang.
Áróður í eina átt
Hægagangur á þó ekki við hvað áróðurinn áhrærir og minnist ég margra erindreka sem komu hingað til lands til að sannfæra okkur um ávinning af samkeppni á þessu sviði, hann ætti bara eftir að skila sér sögðu þeir þegar bent var á að ekki færu saman veruleikinn og staðhæfingar þeirra.
Ég ráðlegg lesendum að skoða vef Stjórnarráðs Íslands þar sem þessari tegund áróðurs er gefið vægi. Þar eru kostir markaðskerfisins tíundaðir samkvæmt kenningu fremur en veruleika og þegar ráðherrar hafa ekki getað horft fram hjá því að uppskipting kerfisins á sínum tíma hafi verið kostnaðarsöm fyrir notendur eins og nær öll íslensku orkufyrirtækin höfðu varað við, þá er okkur boðið upp þá trakteringu að „söluhluti“ raforkureikningsins hefði ekki hækkað! Við hins vegar flest, hygg ég, höfum spurt um það eitt hve mikið okkur væri ætlað að borga!
Og hvert erum við svo komin?
Fyrstu tvö skrefin, sem menn kalla nú „pakka“, gengu út á að búta kerfið þannig niður að hægt væri að reka það sem viðskiptaeiningar en ekki fyrst og fremst opinberar þjónustueiningar. Þetta var samþykkt hér á landi í orkupökkum eitt og tvö. Í orkupakka þrjú er síðan gengið lengra í að samhæfa kerfið í markaðsvæddu samkeppnisumhverfi. Það er fært nær „fjórfrelsinu“ svokallaða, frjálsu flæði fjármagns, vöru, þjónustu og vinnuafls og skorið á naflastrenginn við samfélagið sem eiganda. Allt traust eiga menn nú að leggja á neytendasamtök og samkeppniseftirlit. Í fjórða pakka mun Evrópumarkaði verða skipt upp í svæði óháð landamærum ríkja.
Menn deila ekki um leiðarlok
Menn hafa deilt um innihald hvers pakka en varla geta menn deilt um hvert vegferðinni er heitið. Það hefur alltaf legið beint við. Fyrst var um að ræða kröfu um bókhaldslega aðgreiningu á framleiðslu, dreifingu og sölu. Síðan kom krafa um að eignarhaldi yrði einnig skipt upp. Þar fengu Íslendingar undanþágu sem kunnugt er varðandi eignarhald á Landsneti sem hér á landi hefur verið í eign Landsvirkjunar, Rarik, OR og Orkubús Vestjarða.
Markaðsvæðing og einkavæðing auðvelduð
En þrátt fyrir undanþágu er ríkisstjórnin að undirbúa aðgreiningu á eignarhaldinu á milli framleiðenda og flutningsaðila, að orkuframleiðendur eigi þar ekki hluti eins og nú er. Boðað hefur verið að skattgreiðendur leysi þá út. Hvers vegna?
Nærtækt svar er að þá nálgumst við betur forskrift Evrópusambandsins um raforkumarkað en auk þess yrði nú auðveldara að búta Landsvirkjun niður eins og samkeppnisaðilar hafa þegar viðrað og selja að því búnu bútana.
Hvernig sefa má samfélagið
En hvernig á að bregðast við andófi? Hvernig yrði best staðið að því að friða samfélag sem augljóslega stefnir inn í hærra verðlagsumhverfi með samtengingu sem fjárfestar róa öllum árum að? Það má náttúrlega byrja á því að segja að ekki standi til að sameinast stærri markaði. Það má líka reyna að segja að framlag Íslendinga með hreinni orku inn á stærri raforkumarkað en hér er, sé göfug fórn í anda loftlagsmarkmiða; svo má stofna þjóðarsjóð með nýjum ákvæðum í stjórnarskrá sem kveði á um að af orkunni sem öðrum auðlindum sem gefa arð skuli tekið gjald sem renni til samfélagsins. Þetta var auglýst um daginn og augljóslega ætlað inn í umræðuna um markaðsvæðingu orkunnar. Og síðan má náttúrlega segja að allir þeir sem ekki fylgi þessari hugsun, séu gamlir og úreltir, hafi sagt eitthvað allt annað í gær, séu á móti alþjóðlegu samstarfi eða skilji ekki málið.
Hver svari fyrir sig
Ekkert af þessu er þó rétt. Það eru einfaldlega deildar meiningar um ágæti einkavæðingar. Hvað mig sjálfan snertir hef ég alla mína starfsævi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi og verið því hlynntur, ég tel mig skilja markaðsvæðinguna enda fylgst náið með umræðu um hana á fjölþjóðlegum vettvangi verkalýðshreyfingar og stjórnmála í áratugi. Á þessum vettvangi hef ég tekið virkan þátt í baráttunni gegn einkavæðingu grunnþjónustunnar.
Vissulega má til sanns vegar færa að einhverjir þeirra sem áður voru með markaðsvæðingu séu nú á móti. En er það ekki virðingarvert að skipta um skoðun þegar veruleikinn reynist annar en menn ætluðu?
Gamalt fólk og ungt
Og hvað hinn skelfilega glæp áhrærir að eldast með árunum þá skal ég játa að með aldrinum hefur ekki dregið úr andstöðu minni við einkavæðingu grunnþjónustu. Ég hef leyft mér að skýra það í ljósi þeirrar reynslu sem einkavæðingin hefur fært okkur, óhagkvæmara kerfi með rándýrum milliliðum sem maka krókinn á kostnað samfélagsins. Varla eru það elliglöp að koma auga á þetta?
Auðvitað á ekki að láta oflátunga á fjölmiðlum eða Alþingi komast upp með að þagga niður umræðu með því að gera lítið úr fólki vegna aldurs.
Þar fyrir utan getur það varla talist rétt að horfa framhjá öllu unga fólkinu sem vill að orkan sé okkar.