Fara í efni

HVERNIG ER HÆGT AÐ SLÁ Á HATRIÐ?

Uri Averny
Uri Averny
Villimennskan á Gaza er meiri en orð fá lýst. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna krefst vopnahlés. En áfram heldur blóðbaðið og ofbeldið.

Við höfum orðið vitni að þessu öllu áður. Heyrt þetta allt áður. Nema hvað hatrið fer síst minnkandi. Allir vita að Bandaríkjastjórn gæti stöðvað ofbeldið en hefur ekki viljað öll þessi ár og alla þessa áratugi. Orðalagið alltaf það sama: Ísrael hefur rétt á að verja sig! Þannig eru líka flestir fréttatímar vestanhafs. Þeir fjalla um deiluaðilana tvo, Ísrael og Palestínu eða öllu heldur Hamas.

Aldrei hefðum við talað um deiluaðilana í Suður-Afríku, svarta og hvíta eða í Þýskalandi Hitlertímans, nasista og gyðinga. Á báðum stöðum voru kúgarar og kúgaðir. Það á við um Palestínu.
En verkefnið er ekki að hneykslast eða reiðast. Þetta er miklu alvarlegra og miklu stærra en svo. Það þarf eitthvað að gerast. Umheimurinn verður að hugsa leiðir og leggja sitt af mörkum til að stöðva ofbeldið og slá á hatrið.

Allir vita og viðurkenna að sá aðilinn sem í reynd ræður mestu um framvinduna er Bandaríkjastjórn. Við hana á að tala og hana á að beita þrýstingi. Heima fyrir verður Bandaríkjastjórn ekki fyrir miklum þrýstingi. Það er ekki góður vitnisburður um stóru bandarísku fjölmiðlana að þeir hafa kallað heim fréttamenn sem hafa verið gagnrýnir á Ísrael. Það á við um CNN og NBC, sbr. hér: http://readersupportednews.org/opinion2/277-75/24884-nbc-news-pulls-veteran-reporter-from-gaza-after-witnessing-israeli-attack-on-children


Í byrjun árs 2005 kom ég til Ísraels og fór einnig víða um Palestínu, einkum um Vesturbakkann og Golanhæðir. Í Tel Aviv hitti ég friðarsinna. Öflugt fólk. Því miður hitti ég ekki einn þekktasta ísraelska baráttumanninn fyrir friði, Uri Avnery. Pistla hans hef ég hins vegar lesið marga, gagnrýna en uppbyggilega. Avnery var þingmaður á ísraelska þinginu, Knesset, í áratugi, ritstjóri og rithöfundur. Bókatitlar hans segja sína sögu, Vinur minn óvinurinn, My Friend the Enemy, heitir ein bóka hans. http://en.wikipedia.org/wiki/Uri_Avnery
Sjá um heimsókn mina: https://www.ogmundur.is/is/greinar/raddir-vonar

Það er gott að hlusta á mann eins og Uri Avnery Í þessum pistli er engin svör að finna bara hugleiðingar.
Ég kann engin svör fremur en flestir aðrir að undanskildu því að þrýsta á Bandaríkjastjórn að þrýsta á Ísrael.
Pistill Uri Avnery: http://readersupportednews.org/opinion2/277-75/24883-the-atrocity