Fara í efni

HVERNIG VERÐA GÓÐIR SIÐIR BEST TRYGGÐIR?


Nú verður mörgum tíðrætt um siðareglur í stjórnmálum, í stjórnsýslunni, fjölmiðlum og annars staðar í opinberu lífi og er það vel. Sjálfur held ég að opin umræða sé vænlegri til árangurs en regluverk. Opin lýðræðisleg umræða er út af fyrir sig líkleg til að móta  góðan tíðaranda gagnstætt því vinnulagi sem mótast í skugganum jafnvel þótt menn hafi þar einhverjar reglur að styðjast við. 

 Tveir fyrrverandi sendiherrar, þeir Svavar Gestsson og Þorsteinn Pálsson, komu fram í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag og voru þar sammála um  að setja þurfi embætti forseta Íslands ný lög og siðareglur. Kannski er þetta góð hugmynd. Nema hvað rótin að henni þykir mér ekki vísa inn í framtíðina. Báðir hafa þeir Svavar og Þorsteinn nefnilega gagnrýnt forsetann sérstaklega fyrir hlutdeild hans í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrr í vetur. Þar kviknar hygg ég áhugi þeirra og umhyggja fyrir siðferði forsetans, alla vega einsog hann hefur birst okkur á undanförnum vikum í opinberri umræðu.
Sjálfum finnst mér reyndar óeðlilegt að forsetinn sé milliliður á milli þings og þjóðar þegar lýðræðið er annars vegar. Ef tiltekið hlutfall þjóðarinnar óskar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert mál, þá á atkvæðagreiðslan að mínu mati sjálfkrafa að fara fram. Hvorki Þorsteini né Svavari finnst það eðlilegt og hafa á undandförnum mánuðum ítrekað verið uppi með varnaðarorð gegn þjóðaratkvæðagreiðslu yfirleitt;  þjóðaratkvæðagreiðsla eigi aðeins við í sérstökum málum en eigi ekki ráðast af þrýstingi frá þjóðinni. Almenna reglan samkvæmt þeirra kokkabókum er þingræðið. Þannig hef ég skilið þá.

Hvað varðar siðareglur fyrir forsetambættið að öðru leyti en því sem snýr að afskiptum forsetans að löggjafarsamkundunni, þá er ég síður en svo andvígur því að forsetinn sem aðrir í ábyrgðarstöðum hreyfi sig innan tiltekins siðgæðisramma þótt almennt sé ég hlynntari hinni óskrifuðu reglu en hinni skrifuðu sem áður segir.

Hér á þessari síðu hefur nokkuð oft komið fram gagnrýni á forsetambættið í aðdraganda hrunsins einsog Ólína rifjar hér upp í ágætu lesendabréfi https://www.ogmundur.is/is/greinar/meiri-gagnryni-minni-valdhlydni . Sjá hér nokkur dæmi um umfjöllun um forsetaembættið á liðnum árum þar sem sagður er kostur og löstur á framgöngu forsetans. Ég sló á leitavél Forseti Íslands og fékk þetta út: https://www.ogmundur.is/is/leit?q=fORSETI+%EDSLANDS
 
Á Alþingi setti ég þegar árið 1999 fram mjög ákveðna (4/10 1999) gagnrýni m.a. á forstaembættið fyrir markaðsdekur og benti á að til væru aðrar leiðir: „Það er til fólk sem vill halda inn í nýja öld á annan hátt og uppbyggilegri en þessir ökumenn fortíðarhyggjunnar sem sjá framfarir um baksýnisspegilinn og horfa til árdaga markaðskerfanna...Það er til fólk sem neitar að gera gamlar frjálshyggjukreddur og kauphöllina í New York að biblíu og leiðarljósi inn í nýja tíma...Menn gera sér grein fyrir því að við ramman reip er að draga. Ráðandi öfl í samfélaginu, skoðanamyndandi aðilar, þeir sem taka þátt í að smíða tíðarandann, leggjast allt of oft á sveif með stóreignafólki og hygla talsmönnum sérhyggjunnar. Kauphallarforstjórar frá New York sitja heiðursfundi og boð, jafnvel viðhafnarboð forseta þjóðarinnar á Bessastöðum, sem sérstakir merkisberar framtíðarinnar. Þetta hefur orðið mörgum umhugsunarefni. Á hinu furðuðu sig færri þegar forsætisráðherra Íslands lagðist í öfugmælakveðskap á liðnu sumri og sagðist vera að tryggja dreifða eignaraðild að bönkum um leið og hann hrifsaði þá úr höndum þjóðarinnar allrar, 275 þúsund einstaklinga og lagði að því drögin að fela þá í hendur örfáum fjármálamönnum..."
Sjá nánar: http://www.althingi.is/altext/125/10/r04210331.sgml