Fara í efni

HVERS LENSK ERU FISKELDISFYRIRTÆKIN?


Stærstu bananafyrirtækin í Mið-Ameríku eru Chiquita (áður United Fruit), Dole (Standard Fruit) og Del Monte. Eignarhaldið er bandarískt og þau því bandarísk. Ekki er þetta þó augljóst. Bananarnir eru ræktaðir í Guatemala, Hondúras og fleiri ríkjum Mið-Ameríku og eyjum Karíbahafsins, þar fer líka fram vinnsla og margvísleg umsýsla. Breytir það einhverju?

Þegar fyrir miðja síðustu öld höfðu bandarísk stórfyrirtæki náð undirtökum í bananaframleiðslu í Mið-Ameríku. Þegar um 1930 hafði United Fruit „eignast“ 1,400,000 hektara, í Mið-Ameríku og Karíbahafi, var þá orðinn langstærsti landeigandi í Guatemala svo dæmi sé tekið.

Bandarísk stjórnvöld hafa löngum varið þessar eignir með sprengjum og byssukúlum ef þörf hefur verið gegn íbúum þessara landa sem hafa viljað ná auðlindunum til sín. Ekki bara í Mið- Ameríku. Líka aðeins sunnar, til dæms í Venesuela. Þar hefur verið reynt að ná til baka yfirrráðum yfir olíuauðlindum landsins. Bandarísk yfirvöld ákváðu þá að skipta um stjórn í Venesuela og setja landið í viðskiptabann, það hlyti að vera sérstakt kappsmál að koma allri olíunni að nýju tryggilega í hendur bandarískra olíufyrirtækja; allir myndu græða ef við fáum alla olíuna, sagði John Bolton öryggismálafulltrúi Bandaríkjaforseta svo eftirminnilega.

(Um þetta fjallaði ég fyrir ekki ýkja löngu á tröppum stjórnarráðsins við Lækjargötu því ríkisstjórn Íslands hefur stutt valdaskiptin í Venesuela og viðskiptabannið á landið:  https://www.ogmundur.is/is/greinar/um-venesuela-a-troppum-stjornarradsins ).

Þessi útúrdúr er ekki alveg án tilefnis. Nema náttúrlega byssukúlurnar.

Ég fór nefnilega að velta því fyrir mér eftir lestur dagblaðanna hvort bananafyrirtækin í Mið-Ameríku séu þegar öllu er á botninn hvolft mið-amerísk? Hvernig á að skilgreina þjóðerni fyrirtyækja? Samkvæmt því hvar þau starfa eða hvar eigendurnir búa og hafa höfuðstöðvar?

Eru fiskeldisfyrirtækin sem starfa á Vestfjörðum og Austfjörðum vestfirsk og austfirsk eða eru þau norsk? Meirihlutaeign er í eigu Noðrmanna, fyrirtækin eru skráð í kauphöllinni í Osló en kvíar og sláturhús eru á Íslandi.

Morgunblaðið segir að þau séu vestfirsk og austfirsk. Er Chicquita bananar þá guatemalskt fyrirtæki?

 Þetta er varla verra en hvað annað til umhugsunar með sunnudagskrossgátunni.