HVERS VEGNA ER HÁSKÓLI ÍSLANDS AÐ BERJAST GEGN ALMANNAÞJÓNUSTUNNI?
Enginn vafi leikur á því að þjóðinni finnist nóg komið af „útvistun" og einkavæðingu almannaþjónustunnar. Atburðir síðustu daga hafa fært okkur dýrkeypta lærdóma.
Um langt árabil hefur Viðskiptaráðið hamast í kröfugerð í þessa veru, viljað mola úr almannaþjónustunni arðvænlegustu bitana svo fjárfestar geti gert sér þá að féþúfu.
Þekktasta dæmið þessa dagana eru tilraunir til þess að eyðileggja Íbúðalánasjóð - færa fjármálastofnunum í hendur stönduga viðskiptavini hans, „hin öruggu veð", en láta skattborgarann um þá sem ekki eru borgunarmenn, það er „hin félagslegu úrræði". Eins er það í heilbrigðisþjónustunni. Þar er útvistað auðveldum verkefnum en hinum vandasömu og kostnaðarfreku haldið innan ríkisrekna kerfisins.
Í auglýsingu um námskeiðið segir að það sé ætlað „rekstrarstjórum og fjármálastjórum ríkisstofnana og ráðuneyta". Á námskeðinu verði „farið ...í greiningu á verkefnum ríkisstofnana og hvernig hægt er að flokka þau m.t.t. hæfis til útvistunar. Einnig verður ...kynnt aðferðarfræði við að meta hvenær hentar að útvista verkefnum til aðila einkamarkaðarins".
Endumenntunarstofnun Háskóla Íslands hefur nú leitað aðstoðar fjármálaráðuneytisins um sérfræðiaðstoð við að kenna forstjórum að búta niður „útvistunarhæf" verkefni. Eða var það öfugt? Leitaði fjármálaráðuneytið kannski eftir því við Háskóla Íslands um að tekin yrði upp kennsla í markaðsvæðingu almannaþjónustunnar? Spyr sá sem ekki veit.
Hvort sem er um að ræða, þá leyfi ég mér að mótmæla að skattfé almennings sé varið með þessum hætti. Á markaði eiga menn að fást við verkefni sem þar verða til í stað að grafa undan almannaþjónustunni. Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands á ekki að nota til að kenna stefnu Viðskiptaráðsins og frjálshyggjuvængs Sjálfstæðisflokksins.