Fara í efni

HVERS VEGNA HUNSAR ÞINGMEIRIHLUTINN LÝÐHEILSUSTÖÐ?

Í rannsóknarskýrslu sem unnin er af Lýðheilsustöð og Háskólanum á  Akureyri  og er hluti fjölþjóðlegrar samanburðarrannsóknar kemur fram að börn sem búa við fátækt á Íslandi hreyfi sig minna en önnur börn, borði sjaldnar hollan mat og séu líklegri til að vera of þung og feit en börn efnameira fólks.
Í Morgunblaðinu í dag er leitað eftir viðbrögðum stjórnvalda við þessum niðurstöðum: “Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra segir sárt að vita af fólki í fátækt og leggur áherslu á þátttöku Íslendinga í Ári jafnra tækifæra á vegum ESB árið 2007 auk þess sem hann vill skoða möguleika á aðgerðaáætlun vegna fjölskyldna með lök kjör.”
Inni í blaðinu er síðan haft eftir skólastjóra á höfðuðborgarsvæðinu “sem þekkir vel til aðstæðna fátækra barna á grunnskólaaldri,”“koma mætti vel til móts við þarfir þessara barna ef fé yrði veitt til ýmissa verkefna.” Nefnir hann skólamáltíðir sérstaklega. Þær þurfi að vera fríar, nokkuð sem fulltrúar VG í borginni með Svandísi Svavarsdóttur í broddi fylkingar hafa beitt sér fyrir af alefli eins og Reykvíkinga kann að reka minni til.  Í blaðinu er félagsmálaráðherra spurður um þessar hugmyndir og segir hann þær koma til greina: "Sveitarfélögin falla undir félagsmálaráðuneytið og þau eru að vinna að ýmsum þáttum þessa máls. Ég vil að ríki og sveitarfélög taki höndum saman í þessum málum.."
Ekki vantar yfirlýsingarnar fremur en fyrri daginn. Vitnað í Ár jafnra tækifæra og fjölyrt um mikilvægi þess að gera eitthvað í málum sem “sárt er að vita af.”  En hvernig skyldi standa á því að eins langt skuli vera á milli orða og athafna og raun ber vitni? Fyrir örfáum dögum hunsaði ríkisstjórnin og reyndar allur þingheimur, að undanskildum þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, beiðni Lýðheilsustöðvar um að falla frá áformum um að lækka verð á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum. Með niðurfellingu vörugjalda og lækkun virðisaukaskatts á þessar vörur lækkuðu þær meira en nokkur önnur neysluvara! Þetta var gert þótt Lýðheilsustöð hefði fært rök fyrir því að slíkt leiddi til aukinnar neyslu gosdrykkja, sérstaklega hjá þeim hópum sem erfiðast væri að koma viðvörunum til um heilsufarslega skaðsemi þessara drykkja fyrir tannheilsu og holdafar. Þetta eru sérstaklega börn frá fátækum heimilum.

Við umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins mótmælti ég þessu og var þá spurður hvort ég vildi verðstýra neyslu fátækasta fólksins. Ég kvað já við því, slíkt væri lífsnauðsynlegt og minnti á að hver sú ákvörðun sem tekin yrði hefði í för með sér verðstýringu. Með ákvörðun þingmeirihlutans er óhollustunni Í REYND verðstýrt uppi í munninn á fátækustu börnunum. Þetta liggur í augum uppi því óhollustan er gerð ódýrari en aðrir valkostir.
Ég gef lítið fyrir orð ríkisstjórnar sem skrifar undir alla fínu sáttmálana í útlöndum, gefur út fjálglegar yfirlýsingar um mikilvægi þess að hafa heilbrigði að leiðarljósi við stefnumótun en gerir síðan eitthvað allt annað. Hvers vegna skyldi Lýðheilsustöð hafa verið sett á laggirnar fyrir þremur árum? Til að monta sig af framtakinu? Til að virða orð hennar, viðvaranir og ábendingar að vettugi? Hvers vegna er fremur hlustað á sjónarmið gosdrykkjaframleiðenda en talsmenn hollustunnar? Væri ekki rétt að inna stjórnvöld eftir þessu?

Sjá HÉR
Sjá HÉR