Hvers vegna sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna?
Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún sækist eftir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. Almennt hefur þetta mælst vel fyrir hér á landi án þess þó að málið hafi fengið ítarlega umfjöllun. Menn hafa einfaldlega gefið sér að þetta væri til góðs – fyrir Íslendinga. Þessi afstaða kemur skýrt fram í spurningu sem blaðamaður Morgunblaðsins beinir til forseta Alþjóðafriðarakademíunnar í New York sem hér er nú staddur í boði utanríkisráðuneytisins. (Sjá viðtal við David M. Malone í Morgunblaðinu 21.júní.) Spurningin er nokkuð dæmigerð fyrir okkur Íslendinga og er svohljóðandi: " Ísland mun væntanlega, innan fárra ára, bjóða sig fram til sætis í öryggisráðinu, hvaða þýðingu hefði það fyrir litla þjóð eins og okkur?"
Með öðrum orðum, á hvern hátt myndi seta í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gagnast Íslendingum! Svar hins gestkomandi manns er umhugsunarvert. "Aðild að öryggisráðinu er álitin heiður og er mikils metin meðal flestra landa. Hins vegar er ekki gott að líta svo á aðildina. Í raun felur hún í sér mikla ábyrgð og þá áhættu að verða ósammála valdamiklum þjóðum, sem til dæmis Mexíkó var við Bandaríkin í Íraksstríðnu og varð greinilega til þess að það andaði köldu í tvíhliða samskiptum ríkjanna. Besta leiðin til að nálgast aðild er að líta svo á að hún sé alþjóðleg borgaraskylda sem felur í sér ábyrgð gagnvart alþjóðasamfélaginu í heild."
Afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar í heitustu alþjóðadeilumálum samtímans er öllum kunn, þar á meðal til Íraksdeilunnar, sem mjög hefur komið til kasta Öryggisráðs SÞ. Ætla má að fulltrúi okkar í Öryggisráði SÞ tæki jafnan afstöðu í fullu samræmi við stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar. Sannast sagna hefur mér ekki þótt íslensk stjórnvöld fylgja stefnu "sem felur í sér ábyrgð gagnvart alþjóðasamfélaginu í heild", svo vitnað sé í ummæli Davids M. Malones. Þvert á móti hefur utanríkisstefna núverandi ríkisstjórnar einkennst af þröngsýni og nær takmarkalausri fylgispekt við voldugasta herveldi heims, Bandaríkin.
Og ef við höldum okkur við hina sjálfhverfu sýn landans og spyrjum hvernig ætla mætti að það gagnaðist okkur að beita okkur á þennan hátt í Örygisráði SÞ þá er mín niðurstaða sú að það hefði ekki verið Íslendinugum til sóma að þjóna hagsmunum Bandaríkjanna á þeim vettvangi.
Með gerbreyttum áherslum Íslendinga í utanríkismálum, þar sem við héldum óhrædd á loft málstað réttæltis og friðar, gætum við hins vegar án nokkurs vafa látið gott af okkur leiða í Öryggisráði SÞ. En til að svo megi verða þarf breytta afstöðu og breytta stefnu. Það er grundvallaratriði. Í þessu samhengi þarf að ræða þessi mál.