HVERS VEGNA SENDIHERRA ÍSRAELS VILL EKKI FUND MEÐ VG
Menn hafa nokkuð velt því fyrir sér hvers vegna sendiherra Ísraels vildi hitta að máli fulltrúa allra annarra stjórnmálaflokka en VG, til að skýra hin "tæknilegu mistök" í Ben Hanun á Gaza þar sem 18 óbreyttir borgarar voru myrtir í síðustu viku.
Skýringin gæti verið sú, að Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur andmælt mannréttindabrotum Ísraela svo eindregið á undanförnum misserum að erindrekar Ísraelsstjórnar telja sig geta gengið nærri um hvernig boðskap þeirra og skýringum yrði tekið á þeim bænum.
Í því samhengi má minna á bréf þingflokks VG til forseta ísraelska þingsins í byrjun júlí sl. þar sem harðlega var mótmælt mannréttindabrotum, þ.á.m. fangelsunum á palestínskum þingmönnum.
Bréfið var svohljóðandi:
"Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs á Íslandi mótmælir harðlega fangelsun lýðræðislega kjörinna palestínskra þingmanna og ráðherra og óskar eftir því að forseti ísraelska þingsins beiti sér af alefli fyrir því að þeir verði þegar í stað látnir lausir. Við vekjum athygli á að fangelsun lýðræðislega kjörinna fulltrúa er táknræn um það virðingarleysi sem ísraelsk stjórnvöld sýna lýðræðinu á hernumdu svæðunum í Palestínu. Við fylgjumst með þeim alvarlegu mannréttindabrotum sem saklaust fólk í Palestínu sætir og tökum undir kröfur heimsbyggðarinnar um að þar verði þegar í stað lát á.
Aflétta verður tafarlaust umsátrinu um
Sjá nánar HÉR
Gæti verið að sendiherra Ísraels hafi fengið það veganesti að heiman fyrir Íslandsheimsókn sína að gæta þess að eiga sem minnst samneyti við fulltrúa stjórnmálaflokks sem sendi frá sér orðsendingu af þessu tagi?