Hvers vegna sparisjóðalögin voru nauðsynleg
Fjórir þingmenn tjá skoðun sína á "sparisjóðamálinu" í Fréttablaðinu í dag:
Þarna erum við Sigurður Kári á öndverðum meiði. Það er ekkert óeðlilegt að stofnfjáreigendur ráðstafi þeim fjármunum sem eru þeirra, en það er fullkomlega eðlilegt að mínu mati, að fulltrúar alennings kæmu að stjórnun fjármagns sem er í raun almannafé, ef sparisjóðunum á annað borð yrði breytt í hlutafélög. Nóg um það að sinni.
Sigurður Kári nefnir reyndar einnig atriði sem Guðlaugur Þór leggur ríkasta áherslu á: Nýbúið hafi verið að breyta lögum og "ef menn telja að samningar sem gerðir hafa verið eftir þá lagasetningu standist ekki, þá er það annarra stofnana en Alþingis að meta það." Þetta segir Guðlaugur Þór. En þarf það endilega að vera svo? Ef menn telja að gloppur hafi verið í lögunum þannig að þau þjónuðu ekki þeim tilgangi sem þeim var ætlað, er þá nokkuð óðelilegt að stoppa uppí þau göt? Ég tel slíkt fullkomlega réttmætt. Gefum okkur að í ljós komi alvarlegar brotalamir á skattalögum, jafrnvel lögum sem nýlega hafi verið breytt, telja menn virkilega óeðlilegt að breyta lögunum?
Ekki set ég þó allar lagabreytingar, sem grípa inn í atburðarás, undir sama hatt. Sá grunur læðist að mér að Helgi Hjörvar hafi í huga breytingar löggjafans á lögum eftir frægan dóm sem féll öryrkjum í hag. Hann segir: "Það er oft freistandi að breyta leikreglunum eftir á , en jafnvel þótt það kunni að vera löglegt er það því aðeins siðferðilega verjandi að brýnir almannahagsmunir krefji. Þótt sumir stofnfjáreigendur hefðu hagnast óhóflega eru það ekki brýnir alamannahagsmunir að koma í veg fyrir það." Þetta er rétt hjá Helga en segir aðeins hálfan sannleikann og ekki það sem raunverulega skiptir máli. Almannahagsmunir snerust ekki um það að koma í veg fyrir að afmarkaður hópur manna hagnaðist með því að versla með fjármuni sem þeir ekki áttu. Þessi hópur var vissulega á mjög hálum ís í siðferðilegu tilliti en almannahagsmunir snerust þó ekki um þetta heldur fyrst og fremst um að verja sparisjóðakerfið í landinu.
Það er nefnilega þannig með fullri virðingu fyrir manneskjunni, að hún er breysk. Það er vitað að bankarnir ásælast sparisjóðina í landinu og hafa reynt að bjóða í þá. Setjum upp ofurlítið dæmi sem er raunverulegt. Tiltekinn sparisjóður hefur eiginfé að upphæð 4200 milljónir. Stofnfjáreigendur sem stýra þessum eignum eiga hins vegar aðeins brotabrot af þessari upphæð eða 35 milljónir. Gefum okkur nú að þeim væri boðið margfalt stofnféð, væri ekki líklegt að drjúgur hópur gæfi sig? Í ljósi reynslunnar, svona síðustu tvö til þrjú þúsund árin, þá tel ég það líklegt. Við skulum ekki gleyma því að sparisjóðirnir hafa 25% markaðshlutdeild hér á landi. Þeir eru ekki aðeins eftirsóknarverður fjárfestingarkostur. Þeir gegna veigamiklu hlutverki í efnahagslífinu og tryggja margbreytileika sem flestum þætti eftirsjá að. Sumir líta meira að segja svo á að það varði almannahag að stuðla að þessum margbreytileika. Út á það gekk þessi lagabreyting og tel ég hana fullkomlega verjandi.
Vissulega eru á þessu máli mjög margar hliðar og skil ég til dæmis mæta vel þegar grandvarir menn í SPRON hafa verið vændir um að græðgi stjórni gerðum þeirra í tengslum við samningana við KB-bankann. Vel kann að vera að ýmsir hafi gengið of langt í slíkum ásökunum. Hins vegar áttu þessir menn í höggi við hóp mjög atgangsharðra mann sem fóru aldrei leynt með að þeir voru reiðubúnir að ganga æði langt – jafnvel út fyrir það sem þorra manna þykja vera hin siðferðilegu mörk - til að hámarka gróða sinn. Á íslensku er slíkt kallað græðgi.