Hvers vegna spyrja þeir ekki Halldór?
Heldur er nú dapurlegt að fylgjast með þeim félögum, Bush Bandaríkjaforseta og Blair forsætisráðherra Bretlands, svara fyrir óvandaðan málflutnig til að réttlæta árásina á Írak síðstliðið vor. Nú er komið á daginn að fullyrðingar þeirra um gereyðingavopnabirgðir Íraka reyndust meira og minna út í loftið. Hans Blix fyrrum stjórnandi vopnaleitar Sameinuðu þjóðanna í Írak sagði í viðtali við breska sjónvarpsmanninn David Frost nú um helgina að þeir félagar hefðu beitt því sem hann kallaði "upplýsingastjórnun". Þetta þýddi að upplýsingabútum væri raðað þannig saman að til yrði nýr sannleikur. Dæmi: Staðhæft er að Írakar geti beitt gereyðingarvopnum með 45 mín. fyrirvara. Ekki væru þetta kjarnorkuvopn því fram hafi komið í sömu skýrslum að þau væru ekki fyrir hendi í Írak. Var þetta þá spurning um að setja sýklavopn eða efnavopn í eldflaug eða ef til vill henda flösku með slíkri blöndu í næsta mann? Þetta væri ekki botnað en sá sem á hlýddi sæti með þá tilfinningu að Saddam Hussein gæti ráðist á hann með gereyðingarvopnum innan næsta klukkutíma. Á þessa leið var röksemdafærsla fyrrum æðsta stjórnanda SÞ í vopnaleitinni í Írak.
Bush Bandaríkjaforseti sagði í sjónvarpsviðtali í dag að því hefði verið trúað að gereyðingarvopn hefðu verið fyrir hend í Íraki. Og ....ekki gleyma því bætti hann við, að sérfræðingar okkar telja enn að Írakar hafi getað búið til slík vopn!.
Það sem ég ekki skil er hvers vegna þeir Bush og Blair leita ekki í þrengingum sínum til þess manns sem býr yfir svo mikillli sannfæringu í þessum efnum að enginn getur gengið að því gruflandi að hann búi yfir djúpri og yfirgripsmikilli þekkingu á vopnabúnaði Írka. Ef einhver veit hvar vopnin eru, hlýtur það ekki að vera Halldór?