Fara í efni

HVERS VEGNA STÓÐ ÍSLAND EKKI MEÐ MANNRÉTTINDUM?


Ísland sat hjá við atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum um hvort líta beri á vatn sem mannréttindi. Talsmenn utanríkisráðuneytisins bera við skýringum sem eru í senn lítt skiljanlegar og ótrúverðugar. Þannig segir sendiherra Íslands hjá SÞ, í viðtali við Fréttablaðið í dag, „að það dugi ekki einfaldlega að lýsa réttinn til vatns mannréttindi."  Hann segir að „hinn raunverulegi vandi" sé að bæta vatnsstjórnun í heiminum, þar með laga- og reglugerðarumhverfið. Vísað er í viðræður sem fram fari um þessi mál á alþjóðavettvangi og að óvarlegar yfirlýsingar og samþykktir geti grafið undan árangri um raunverulegar úrbætur.
Hvað á utanríkisráðuneytið við með þessu? Það verður að upplýsa. Eitt af því sem hefur valdið deilum á alþjóðavettvangi er hvort yfirlýsing af þessu tagi - sem segir aðgang að vatni vera mannréttindi - gæti strítt gegn markaðshagsmunum; stangast á við kröfur sem ríki höll undir fjármagnið vilja ætíð halda á lofti um rétt fjárfesta til gjaldtöku fyrir vatn. Það er eitt að greitt sé fyrir afnot af vatnsveitum hóflegt gjald byggt á hugmyndum um almannaþjónustu, annað er heimila fyrirtækjum að gera vatn að gróðalind.
Samþykkt SÞ gengur út á að skilgreina vatn sem mannréttindi sem þýðir að enginn á rétt á því að halda vatni frá þurfandi fólki á bisnissforsendum. Þetta þekkjum við frá snauðum þriðjaheimsríkjum þar sem fyrirtæki hafa fengið  einkarétt á vatnsveitum og haldið því fram að það stangaðist á við lög þegar almenningur nýtti sér  rigningarvatnið neyslu! Þetta er enginn tilbúningur. Þetta er raunveruleiki og til hans hefur oft verið vísað hér á þesasari síðu (t.d. framferði auðhringsins Bechtel í Bólivíu sjá m.a. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/jonina-bjartmarz-umhverfisverdlaunin-og-hinar-syrgjandi-maedur).
Það er í þessu samhengi sem tekist er á um hvort líta eigi á vatn sem mannréttindi. Og það er í þessu samhengi sem afstaða Íslands er ekki bara illskiljanleg heldur óafsakanleg.
Afstöðu Íslands við þessa atkvæðagreiðslu verður að skýra.
Í mínum huga á ég erfitt með að ímynda mér nokkra skýringu sem dugir til að réttlæta afstöðu Íslands. En ef sú skýring er til vil ég heyra hana.