Fara í efni

HVERS VEGNA VG FAGNAR SÉRSTAKLEGA FRUMKVÆÐI SÚÐVÍKINGA


Bæjaryfirvöld í Súðavík hafa tekið af skarið og ákveðið að leikskólinn þar í bæ skuli verða gjaldfrjáls. Um þetta hefur verið fjallað í fjölmiðlum sem eðlilegt er og þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur sent Súðvíkingum hamingjuóskir af þessu tilefni. Hvers vegna skyldi þingflokkurinn gera það? Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi sýna Súðvíkingar frumkvæði og stíga mikilvægt framfaraspor sem ástæða er til að félagslega þenkjandi fólk gleðjist yfir. Í öðru lagi er þetta mál VG sérlega hugleikið því í síðustu Alþingiskosningum var þetta eitt helsta baráttumál flokksins.
Á Alþingi hefur þingflokkurinn ítrekað flutt þingmál um þetta málefni og lagt til skattabreytingar til þess að auðvelda sveitarfélögum að stíga þetta skref. Fyrsta sveitarfélagið til að taka af skarið er Súðavík og fyrir bragðið hljóta Súðvíkingar sértakt lof þeirra sem barist hafa fyrir framgangi þessa máls.
Í greinargerð með þingmáli VG frá í vetur segir m.a.: "Nokkuð er um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og starfsheitið leikskólakennari var tekið upp. Þegar af þeirri ástæðu leiðir að fá haldbær rök eru til þess að foreldrar greiði dýrum dómum fyrir skólahaldið sjálft, þ.e. leikskólamenntun, á fyrsta skólastiginu en hætti því svo skyndilega þegar börnin hafa náð grunnskólaaldri. Í leikskólastefnu Félags leikskólakennara er tiltekið að „leikskólinn eigi að vera hluti af menntakerfi samfélagsþjónustunnar eins og önnur skólastig og því skuli sveitarfélög vinna markvisst að því að börnum gefist kostur á 6 tíma leikskólagöngu á dag án endurgjalds." Þá segir að"niðurfelling leikskólagjalda yrði gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn. Sú kjarabót mundi skila sér beint til fjölskyldna sem eru í mikilli þörf fyrir betri aðbúnað. Um leið yrði tekið stórt skref í átt til fjölskylduvænna samfélags. Hér er um að ræða yngstu foreldrana sem jafnframt eru að koma sér fyrir í lífinu og margir að koma út úr skólum með námslán á bakinu, eru að leysa húsnæðismál sín o.s.frv. Mánaðarleg leikskólagjöld eru nú víðast hvar um og yfir 30 þús. kr...Ekki verður um það deilt að það er mikið jafnaðar- og jafnréttismál í nútímasamfélagi að allir eigi kost á leikskóladvöl fyrir börn sín án tillits til efnahags. Flutningsmenn tillögunnar líta á breytingar í þessa átt sem lið í því að gera samfélagið fjölskylduvænna og styrkja undirstöður velferðar í landinu. Sérstök ástæða er til að huga að stöðu fjölskyldna nýrra Íslendinga í þessu sambandi."

Sjá nánar hér.