Fara í efni

HVERSU LENGI Á BANDARÍKJASTJÓRN AÐ KOMAST UPP MEÐ AÐ FREMJA MANNRÉTTINDABROT?

Á vef CNN fréttastofunnar bandarísku segir nýlega frá dæmum af pyntingum, líkamlegum og ekki síður andlegum, í Guantanamo fangelsi Bandaríkjamanna á Kúbu. Yfirpyntingameistarinn um nokkurra missera skeið frá 2002, Miller að nafni, hefur  til dæmis skýrt frá því að til að fá tiltekinn fanga í fangabúðunum til að tala hefði verið reynt að brjóta hann niður, og svo vitnað sé í CNN, með því hefja yfirheyrslurnar á staðhæfingum um að móðir hans og systur væru hórur. Fanginn hafi síðan verið látinn setja upp brjóstahaldara, leðurólar hafi verið settar yfir höfuð hans, síðan hafi honum verið sagt að hann væri hommi og að það væri á vitorði allra í fangelsinu. Þá hafi hann verið látinn dansa við karlkyns fangavörð, afklæðast til að hægt væri "að leita á honum" (þótt það væri þarflaust fyrir yfirheyrsluna), grimmir hundar látnir ógna honum; hann hafi verið látinn standa nakinn frammi fyrir kvenfólki í fangelsinu og síðan þröngvað til að skríða um eins og hundur með ól um hálsinn.
Miller yfirfangavörður taldi þetta ekki flokkast undir pyntingar. Miller hefur látið af yfirfangavarðastarfinu í Guantanamo en gegnir nú virðulegu embætti í bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Hér á síðunni hefur margoft verið fjallað um pyntingarnar í Guantanamo, nú síðast þegar tímaritið Newsweek baðst afsökunar á frétt sem erfitt er að sjá að yfirleitt hafi verið röng. Það er skelfileg tilhugsun að stórum fjölmiðlum sé stýrt til að endurskrifa söguna svo hún verði valdhöfum þóknanleg. Sjá nánar HÉR.

Mannréttindasamtök víðs vegar um heiminn hafa mótmælt mannréttindabrotum Bandaríkjastjórnar og hefur Amnesty International staðið þar í fararbroddi. Í lok júnímánaðar mótmælti Íslandsdeild Amnesty International pyntingunum í Guantanamo við Austurvöll í Reykjavík. Fólki gafst kostur á að reyna í fáeinar mínútur það sem er daglegt brauð fanganna í Guantanamo: Lokað var fyrir öll skynfæri með eyrnahlífum, rykgrímum og augnhlífum. "Svo getur fólk spurt sig sjálft að því hvort um pyntingar sé að ræða", var haft eftir Jóni Þór Ólafssyni, forsvarsmanni aðgerðarhópsins innan Amnesty International, sem stóð fyrir þessari uppákomu, í Fréttablaðinu 27. júní.

Þetta var virðingarvert framtak hjá Amnesty International. En hversu virðingarvert er það af hálfu okkar, almennings í þessu landi og heiminum öllum, að mótmæla ekki af meiri krafti en raun ber vitni þessu yfirvegaða ofbeldi? Hversu lengi ætlar heimurinn að láta Bandaríkjastjórn komast upp með mannréttindabrot af þessu tagi? Því miður má ætla að það verði svo lengi sem ráðamenn í heiminum láta stjórnast af ótta, undirgefni og græðgi. Það er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skuli hafa skipað Íslendinugum á bekk með þeim ríkjum sem liggja hundflöt frammi fyrir herveldinu í vestri. Íslenska þjóðin á betra hlutskipti skilið enda hefur margoft komið fram að stefna ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum síðustu misseri er þjóðinni ekki að skapi.

Í Guantanamo eru nú 520 fangar. Í pyntingabúðunum er þeim haldið  án dóms og laga. Sárafáir hafa verið ákærðir fyrir að hafa drýgt einhvern glæp. Það skyldu þó aldrei vera glæpamennirnir sem hafa lyklavöldin í Guantanamó fangelsinu?

Frétt CNN sem vitnað er til er HÉR