Hlutverk fjölmiðla í Íraksdeilunni hlýtur að vera hið sama og í öllum málum, það er að gera grein fyrir mismunandi sjónarmiðum og stuðla að því að sannleikurinn komi í ljós í hverju máli eftir því sem mögulega kostur er. Í Íraksdeilunni greinir stjórn og stjórnarandstöðu á um hvort þáverandi utanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi upplýst utanríkismálnefnd Alþingis um forsendur þeirrar ákvörðunar sinnar að "styðja tafarlausa afvopnun Íraks" eins og Morgunblaðið hefur eftir Eiríki Tómassyni lagaprófessor í dag. Hér er sem sagt áherslan á meint gereyðingarvopn í Írak í fyrirrúmi og réttlæting fyrir innrás.
Eiríkur segir að þótt kveðið sé á um það í þingskaparlögum að upplýsa eigi utanríkismálanefnd um "meiri háttar utanríkismál" þá sé jafnan matsatriði hvað flokkist undir slík mál. Hvað sem því líður þá hafi utanríkismálanefnd verið upplýst um afstöðu ríkisstjórnarinnar á fundi 19. febrúar 2003. Ekki kemur fram hvort Eiríki hefur verið sýnd fundargerð þess fundar, nokkuð sem vekur spurningar. ( Voru honum sýnd trúnaðarskjöl? Ef ekki, hvernig getur maðurinn þá dregið þær ályktanir sem hann gerir?). Allt veltur á því hvað utanríkisráðherrann þáverandi sagði á þessum fundi, fundinum sem meint samráð er sagt hafa átt sér stað. Sagði hann að ríkisstjórnin hefði sannfærst um að réttlætanlegt væri fyrir Bandaríkjamenn og Breta að ráðast inn í Írak án samþykkis Sameinuðu þjóðanna? Hafði ríkisstjórnin látið sannfærast um að Bandaríkjamenn hefðu óyggjandi sannanir fyrir því að gereyðingarvopn væru í Írak og því bæri ekki að fara að tilmælum Hans Blix og annarra vopnaleitarmanna SÞ um meiri tíma til vopnaleitar? Ef ráðherrann sagði þetta þá skal ég fallast á að hann hafi upplýst Alþingi um forsendur þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að gerast ein hinna viljugu ríkisstjórna og taka þannig þátt í því að veita Bandaríkjastjórn pólitískt bakland sem henni hafði misheppnast að skapa í Öryggisráði SÞ. Ef hann sagði þetta ekki eða hið gagnstæða þá einfaldlega standast fullyrðingar ráðherrans ekki. Það sem meira er, ekki verður annað séð en hann hafi þá beinlínis farið með rangt mál; að tal hans um að hafa rætt málin við utanríkismálanefnd séu í besta falli afvegaleiðandi því hann hafi ekki gefið nefndinni réttar upplýsingar um þær forsendur sem ríkisstjórnin byggði afstöðu sína á um stuðning við innrásina.
Þetta þarf að upplýsa. Það er undarlegt að fjölmiðlar skuli ekki allir líta á það sem hlutverk sitt að draga fram í dagsljósið gögn sem upplýsa málið í stað þess að gera útúrsnúninga Halldórs Ásgrímssonar um meinta vanþekkingu stjórnarandstöðu á utanríkismálum að aðalatriði í fréttaflutningi, eins og Ríkissjónvarpið gerði t.d. í kvöld. Ekki var nóg með að útúrsnúningsbútur úr ræðu Halldórs í þinginu í dag væri birtur heldur fékk hann – og hann einn – að árétta árásir á gagnrýnendur sína í sérstöku viðtali sem greinilega var tekið eftir ræðuhöldin.
Halldór Ásgrímsson segir að honum sé ekki á móti skapi að aflétt verði leynd af ummælum hans í utanríkismálanefnd frá 19. febrúar 2003. Á föstudag hefur verið boðaður fundur í nefndinni. Þá kemur í ljós hvort hugur fylgir máli. Til upplýsingar skal birt 24. grein þingskaparlaga þar sem kveðið er á um trúnað í nefndinni: "Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum. Nefndarmenn eru bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju sem þeir fá í nefndinni ef formaður eða ráðherra kveður svo á."
Nú hefur komið fram að ráðherra óskar ekki eftir leynd. Hvað gerir Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar á föstudag? Hvernig tækju fjölmiðlar því ef hún krefðist þess að litið væri á fundargerð umrædds fundar sem trúnaðarmál og tæki þannig ómakið af Halldóri? Tækju fjölmiðlamenn því athugasemdalaust og án þess að láta stjórnarmeirihlutann gera grein fyrir afstöðu sinni á sannfærandi hátt? Eða yrði Sjónvarpið aftur með frétt um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar?