Fara í efni

HVERT ER HLUTVERK UPPLÝSINGAFULLTRÚA FORSÆTISRÁÐUNEYTISINS?

Að gefnu tilefni velti ég því fyrir mér hve marga aðstoðarmenn Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hafi ráðið til starfa í forsætisráðuneytinu. Björn Ingi Hrafnsson er titlaður aðstoðarmaður ráðherra, ef ég man rétt. Hann er kraftmikill pólitískur áhugamaður og betri en enginn fyrir sinn mann. Það má í sjálfu sér segja líka um Steingrím Ólafsson, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins. Allt gott um það, nema hvað ég hefði haldið að upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins héldi örlítið aftur af framsóknarmennskunni í sjálfum sér þegar hann notar embættistitil sinn í opinberum blaðaskrifum. Það gerir Steingrímur Ólafsson hins vegar ekki. Í dag skrifar hann grein í Blaðið, sem ber yfirskriftina Tómu tunnur stjórnarandstöðunnar. Þar eru pólitískum andstæðingum forsætisráðherra og félögum hans í Framsóknarflokknum ekki vandaðar kveðjurnar. Þeim eru gefnar einkunnir og virðist frammistaða manna metin með öfugum formerkjum. Við Össur Skarphéðinsson, megum vel una við þessa framsóknar-einkunnagjöf en fyrirsögnin virðist öðrum fremur hafa verið ætluð okkur.
Steingrímur Ólafsson telur mikilvægt að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri. Það er hið besta mál og á hann að hafa til þess fullt frelsi. Að titla sig upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins þegar hann heldur inn á síður dagblaðanna í þessum erindagjörðum orkar hins vegar tvímælis. Eða hvers vegna skyldu embættismenn forsætisráðuneytisins blanda sér í pólitísk deilumál í nafni ráðuneytisins? Það hljóta menn að eiga að gera í eigin nafni.
Annars væri fróðlegt að fá að vita hvert er verksvið upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins og á hvern hátt hann er talinn gagnast skattborgaranum sem greiðir honum laun. Ætli verkefnið hljóti ekki að vera að upplýsa um málefni ráðuneytisins – eða hvað?