HVERT NÆR MANNRÉTTINDA RATSJÁ OKKAR?
Samkvæmt fréttum í dag hafa ráðherrar varnarmála á Norðurlöndum áhyggjur af Rússum á Norðurslóðum og í Úkraínu. Eflaust eru áhyggjur þeirra réttmætar. Ekki síst í ljósi þeirrar þróunar sem við verðum nú vitni að í átt að kaldastríðs stjórnmálum.
Furðu má sæta hve glámskyggnir stjórnmálamenn og fjölmiðlar, margir hverjir, eru á það hvernig stríðsæsingaapparat hergagnaiðnaðarins er að takast að færa okkur inn í gamalkunnug hjólför kalda stríðsins. Slíkt andrúmsloft er kjörlendi fyrir öfgastefnu og alræðisöfl.
NATÓ ríkin og Evrópusambandið, sem nú langar til að verða stórveldi, neita að horfast í augu við eigin hlutdeild í því hvernig málum er nú komið í Úkraínu en þessi ríki voru beinir aðilar að atburðarás þar, sem engan veginn hefur haft lýðræðið að leiðarljósi - þvert á móti fótum troðið það.
Hvers vegna álykta norrænir ráðherrar varnarmála ekki um morðárásir NATÓ ríkja með mannlausum sprengjuloftförum á saklaust fólk í Jemen, Pakistan og víðar? Hvers vegna skyldu NATÓ ríki aldrei hafa mótmælt pyntingabúðum Bandaríkjastjórnar í Guantanamó? Þar eru GRUNDVALLARREGLUR mannréttinda og réttarríkis fótum troðnar.
Eru menn svo uppteknir að verja okkur fyrir hinum mannréttindabrjóutunum? Eða eru mannréttindabrot og ofbeldisverk NATÓ ríkja utan mannréttinda ratsjár Norðurlandanna?