Hvert skal stefna?
Birtist í Mbl
Árið 1995 varð að ráði að Alþýðubandalagið byði fram undir heitinu Alþýðubandalag og óháðir. Ástæðan var sú að hópur fólks og var undirritaður þeirra á meðal sem ekki var flokksbundið vildi taka þátt í stjórnmálabaráttu og freista þess að safna liði á meðal þeirra sem ekki höfðu gengið í stjórnmálaflokka en væru engu að síður reiðubúnir að beita sér á vettvangi stjórnmálanna. Á þessum tíma var að ljúka fjögurra ára kjörtímabili Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og höfðu menn þá heldur betur fengið smjörþefinn af því sem síðar varð framhald á í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessu kjörtímabili. Einkavæðing og hvers kyns gjaldtaka, jafnt innan velferðarþjónustu sem utan, komst á dagskrá og kröfum verkalýðshreyfingar um jöfnuð var vísað til föðurhúsanna. Skattar voru lækkaðir á fyrirtækjum og klyfjum hlaðið á launafólk. Iðulega var þetta réttlætt í ljósi efnahagslegra þrenginga sem í raun er undarlegur fyrirsláttur því þegar þrengir að eru lítil búhyggindi að láta hina þurfandi blæða svo unnt sé að bæta hag hinna sem eru aflögufærir. Á þessum tíma voru boðaðar grundvallarbreytingar á allri stjórnsýslu og skipulagi samfélagsins. Innan verkalýðshreyfingar, og víðar, þótti okkur sem barist höfðum gegn þessari þróun og vildum ganga í gagnstæða átt og efla félagsleg gildi, að nú gæti enginn skorast undan því að leggjast á hinar pólitísku árar.
Þar sem okkur þótti stefna Alþýðubandalagsins ríma vel við okkar pólitísku áherslur og samvisku og þar sem við áttum kost á því að taka þátt í að móta þau áhersluatriði sem G-listaframboðið lagði fyrir kjósendur var brugðið á það ráðið að hafa þennan hátt á. Hefur þetta gengið ágætlega upp og aldrei hef ég orðið var við annað en að samstarf hafi verið með miklum ágætum á þessu kjörtímabili. Auðvitað er það hálfankannaleg staða að starfa með pólitískum flokki án þess að taka að fullu þátt í starfi hans og getur slíkt aldrei gengið til frambúðar. Sjálfur hef ég íhugað að ganga í Alþýðubandalagið en að sjálfsögðu mun það ráðast af því hvort sá flokkur hugir sjálfum sér lífdaga.
Nú bregður svo við ekki alls fyrir löngu að stofnað er til félagsskapar sem ber heitið Stefna. Þorri þeirra sem aðild áttu að þessari félagsstofnun í upphafi voru einstaklingar sem komu að fyrrgreindu kosningabandalagi við Alþýðubandalagið undir heitinu óháðir. Fljótlega komu þó fleiri til sögunnar og er það fólk víðar að en úr fyrrgreindum pólitískum ranni. Til þessa félags er stofnað til að skapa vettvang fyrir stjórnmálaumræðu sem grundvallast m.a. á þeim meginmarkmiðum að efla samfélagsvitund og treysta samfélagsþjónustuna, reka framsækna umhverfisstefnu og tryggja að auðlindir til lands og sjávar verði sameign þjóðarinnar. Þá er lögð höfuðáhersla á að spyrna við fótum gegn einkavæðingu og hefja þess í stað gagnsókn til að bæta velferðarþjónustu.
Nú má spyrja sem svo, hvort þetta séu ekki einmitt þau sjónarmið sem einkennt hafi Alþýðubandalagið. Svar mitt við þeirri spurningu er vitaskuld játandi enda engin tilviljun að ég hef viljað starfa með þeim flokki. Á hitt er að líta að innan Stefnu er fólk úr öðrum stjórnmálafylkingum sem hefur tekið því fegins hendi að þetta félag skuli verða til.
Með árangur að leiðarljósi
Við annað tilefni verður nánar gerð grein fyrir Stefnu og markmiðum félagsins. Hér verður hins vegar vikið að svokölluðum sameiningarmálum fyrir næstu kosningar og er þar vísað til hugmynda um að slá í eitt Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista. Í langan tíma hef ég verið þeirrar skoðunar að þrátt fyrir ólíkar áherslur eigi þessir flokkar að starfa saman og reyndar allir þeir sem vilja kenna sig við félagshyggju. Ég tel hins vegar brýnt að þrennt sé haft að leiðarljósi: Í fyrsta lagi að menn losi sig við kvótahugsun gagnvart kjósendum, að flokkar telji sig hafa umboð til að ráðstafa þeim að eigin vild; í öðru lagi að skipulagsbreytingar á vettvangi stjórnmálanna verði ekki til að deyfa póltíska baráttu og í þriðja lagi er mikilvægt að vera praktískur í hugsun og hugleiða rækilega hvernig árangri verði best náð.
Í þessu samhengi er rétt að spyrja hvað skuli til bragðs taka í þjóðfélagi þar sem markaðshyggja hefur náð að skjóta rótum í þeim mæli sem nú hefur gerst? Tvennt þarf að gerast að mínum dómi. Í fyrsta lagi eigum við að skipuleggja stjórnmálabaráttu þannig að tryggt sé að vinstrisinnuðum sjónarmiðum sé haldið hátt á loft og svo búið um hnúta að unnt sé að afla þeim fylgis. Reynslan sýnir að í stórum kosningasamsteypum, sem hugsaðar eru og hannaðar til að ná til meirihluta þjóðarinnar, er jafnan reynt að draga úr og deyfa allar eindregnustu skoðanir manna, einfaldlega vegna þess að óttast er að þær gætu stuðað tiltekna hópa kjósenda. Þess vegna er iðulega reynt til hins ýtrasta á þanþol þeirra sem standa næst jaðri hreyfingarinnar og er gengið svo langt sem talið er þorandi, þó þannig að þeir hugsi sér ekki til hreyfings.
En hvað þá með völdin, ætla menn að útiloka sig frá formlegum völdum, þau þurfa vissulega að byggjast á meirihlutafylgi; þurfa menn því ekki að gera málamiðlanir? Vissulega, og er þar komið að hinu atriðinu sem ég vildi nefna. Til þess að vinstrisinnað fólk komist í aðstöðu til að stjórna þarf að sjálfsögðu samstarf við aðra og slíkt kallar á málamiðlanir. Það skiptir hins vegar sköpum hvenær og á hvaða forsendum málamiðlanir eru gerðar. Ef málamiðlanir eru gerðar áður en gengið er til kosninga gefst kjósendum aldrei kostur á því að styrkja og efla þau sjónarmið sem kunna að vera í minnihluta, hætt er við því að þau frjósi í málefnasamningi löngu fyrir kosningar. Og það sem meira er, aldrei gefst kostur á að tala máli þessara sjónarmiða. Þetta þýðir að öll pólitísk umræða verður smám saman flött út. Taka má hér sem dæmi hugsanlegt samstarf Alþýðubandalags og Alþýðuflokks. Þessir flokkar hafa haft ólíkar áherslur varðandi fjármögnum velferðarþjónustunnar, í skattamálum, landbúnaðarmálum og ekki síst í Evrópumálum. Í stað þess að flokkarnir töluðu af sannfæringarkrafti fyrir sínum áherslum og bæðu kjósendur að styrkja sig í komandi kosningum og gefa sjónarmiðum sínum þannig vægi við stjórnarmyndunarviðræður í stað þessa yrði allt frágengið áður en kosningabaráttan hæfist er allt slétt og fellt en baráttan fyrir bragðið að sjálfsögðu steindauð.
Leið til árangurs
Ég tel að það sem eigi að gera fyrir komandi kosningar sé þetta: Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Kvennalisti lýsi því yfir að þeir séu staðráðnir í því að starfa saman eftir næstu Alþingiskosningar. Þeir geri með sér samkomulag um lágmarksskilyrði fyrir slíku samstarfi en myndu ekki ganga frá stjórnarsáttmála fyrr en að kosningum loknum og í ljós hefði komið hver vilji kjósenda væri. Þá kæmi einnig í ljós hvort Framsóknarflokkurinn væri reiðubúinn að ganga til slíks samstarfs. Framsóknarflokknum yrði jafnframt gert ljóst að líkur væru á að sá flokkur á þessum væng stjórnmálanna sem kæmi sterkastur út úr kosningum myndi hafa verkstjórnarhlutverk á hendi.
Með þessum hætti myndi tvennt vinnast. Tryggð yrði kraftmikil stjórnmálabarátta og hin praktísku sjónarmið yrðu jafnframt í öndvegi. Þetta væri með öðrum orðum líklegt til að tryggja framgang vinstri stefnu og auðvelda merkisberum hennar aðgang að framkvæmdavaldinu.